Vaxandi óánægja með heilsugæsluna

Ánægja skjólstæðinga heilsugæslustöðvanna á höfuðborgarsvæðinu fer minnkandi.
Ánægja skjólstæðinga heilsugæslustöðvanna á höfuðborgarsvæðinu fer minnkandi. Ljósmynd/Colourbox

Ánægja skjólstæðinga heilsugæslustöðvanna á höfuðborgarsvæðinu fer minnkandi samkvæmt gæða- og þjónustukönnun sem gerð var fyrir Sjúkratryggingar Íslands. Niðurstöðurnar voru kynntar hlutaðeigandi á fundi með rannsóknarfyrirtækinu Maskínu í byrjun mánaðarins.

Ánægja skjólstæðinga minnkar um tæp 5% frá síðustu könnun en heildarskorið er samanlagt meðaltal úr svörum við nokkrum spurningum eins og um traust, þjónustu, viðmót starfsfólks og fleira. Alls eru heilsugæslustöðvarnar 19 talsins á svæðinu. „Niðurstöðurnar eru ekki ásættanlegar að mínu mati enda lækkar heildarskorið um 4,7%,“ segir Oddur Steinarsson varaformaður Læknafélagsins og heimilislæknir.

Könnunin er sú þriðja frá því kerfinu var breytt árið 2017. Fyrri kannanir voru gerðar 2019 og 2022 en nýjasta könnunin var gerð seint á síðasta ári. Oddur segir að því miður hafi niðurstöðurnar ekki komið sér á óvart.

Oddur Steinarsson.
Oddur Steinarsson. mbl.is/Sigurður Bogi

„Undanfarin ár hafa verið erfið og mönnun heimilislækna er allt of léleg. Þeir sem koma illa út úr könnuninni eiga erfitt með að halda uppi þjónustu vegna þess að það vantar mannskap.“

Einkareknar stöðvar eru í fjórum efstu sætunum í könnuninni. Heilsugæslan Salahverfi og Heilsugæslan Kirkjusandi fengu bestu heildareinkunn en þar á eftir komu Heilsugæslan Höfða og Heilsugæslan Urðarhvarfi. Skjólstæðingarnir eru óánægðastir með Heilsugæsluna Efstaleiti samkvæmt könnuninni.

Oddur er ekki bjartsýnn á framhaldið í óbreyttu ástandi m.a. með tilliti til fólksfjölgunar. „Nú eru 100 manns í sérnámi en 70 heimilislæknar munu fara á eftirlaun á næstu tíu árum. Í dag vantar nærri 200 heimilislækna á landsvísu og ef okkur mun fjölga um 50 þúsund á næstu tíu árum þá kallar það á 40 nýja heimilislækna til viðbótar við það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert