Yfir 1.500 börn á biðlista

Umboðsmaður barna birtir nú í fimmta sinn upplýsingar um bið …
Umboðsmaður barna birtir nú í fimmta sinn upplýsingar um bið barna eftir þjónustu. Ljósmynd/Colourbox

Alls biðu 1.513 börn eftir athugun vegna gruns um ADHD og/eða einhverfu hjá Geðheilsumiðstöð barna um seinustu áramót.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá umboðsmanni barna. Embættið birtir nú í fimmta sinn upplýsingar um bið barna eftir þjónustu.

Í lok janúar biðu 797 börn eftir þjónustu hjá Heyrnar- og talmeinastöð. Þessi börn bíða nær öll eftir heyrnarmælingu og sum einnig eftir annarri þjónustu heyrnarfræðinga eða lækna.

Umboðsmaður barna hefur óskað eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðherra um hvort það standi til að koma á miðlægum biðlistum eftir þjónustu barna hjá talmeinafræðingum.

Sjö börn bíða eftir að komast inn á meðferðardeild Stuðla og er meðalbiðtími þar 66 dagar. Engin bið var eftir þessari þjónustu fyrir ári.

442 mál bíða meðferðar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á grundvelli barnalaga og hjúskaparlaga, að því er segir í tilkynningunni.

Börnum sem bíða eftir þjónustu hjá BUGL hefur fækkað frá því tölum var fyrst safnað af umboðsmanni barna í desember 2021. Þá biðu 133 börn og var meðalbiðtími frá 5,3 upp í 11,1 mánuð og höfðu 95 börn beðið lengur en þrjá mánuði. Í lok janúar 2024 biðu 22 börn, meðalbiðtími var 1,26 mánuðir og hafði eitt barn beðið lengur en þrjá mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert