Búið að fergja Njarðvíkuræðina

Búið er að fergja Njarðvíkuræðina.
Búið er að fergja Njarðvíkuræðina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búið er að fergja þann hluta Njarðvíkuræðarinnar sem hraunflæðilíkön benda til að hraun gæti flætt yfir. Er heitavatnslögnin, sem útvegar öllum Suðurnesjum heitu vatni, nú betur tryggð en fyrir síðasta gos.

Þetta segir Krist­inn Harðar­son, fram­kvæmda­stjóri fram­leiðslu hjá HS Orku, í samtali við mbl.is.

„Lögnin var grafin niður að hluta á hraunveginum og það var grafinn þar grunnur skurður og hún færð þar ofan í. Svo var fergjað yfir með jarðvegsfyllingu og búið að búa til malarpúða ofan á lögnina. Þannig hún er á góðum stað ef það kemur hraun þarna yfir núna,“ segir Kristinn.

mbl.is

Eins vel undirbúin og hægt er

Þá segir hann að einnig sé búið að fergja lögnina norðan við hrauntunguna enda bendi hraunflæðilíkön til þess að ef um stórt gos sé að ræða þá gæti hraunflæði náð lengra en síðast.

„Það er búið að fergja vel að henni og kaffæra henni í jarvegsfyllingu líka alveg upp á hæsta punkt sem þarna er. Þannig það getur líka farið hraun þar yfir án þess að það myndi hafa áhrif á lögnina.“

Myndir þú segja að lögnin sé öruggari núna en fyrir síðasta gos?

„Já. Við erum bara eins vel undirbúin og getum verið,“ svarar Kristinn.

Tengja nýtt mastur á Rauðamelslínuna

Þá er verið að auka varnir við orkuinnviði í Svartsengi eins og háspennumöstur á Rauðamelslínunni. Búið er að byggja varnargarða í kringum þau möstur og er einnig verið að byggja tvö ný stór möstur.

„Við erum að taka ákvörðun um það hvort að við tengjum það núna í vikunni. Það er hugsanlegt að við gerum það núna á fimmtudaginn. Þá er raflínan komin mjög hátt og tengist inn á tvö ný möstur og við erum þá vel undirbúin að raflínurnar séu líka varðar,“ segir hann og bætir við að Landsnet sé í forystu í því verkefni. 

Búið er að flytja efni í Svartsengi til að bæta eða byggja innviði sem gætu farið undir hraun í öðru gosi. Kristinn segir þetta gert til að tryggja skjótt viðbragð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert