Kvaðst hafa fengið slæma tilfinningu og hætt við

Um mikið magn fíkniefna var að ræða af nokkuð háum …
Um mikið magn fíkniefna var að ræða af nokkuð háum styrkleika. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt karl og konu fyrir tilraun til stórfells fíkniefnalagabrots, en þau reyndu að taka við 1.093,38 g af kókaíni ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Fram kemur í dómnum að þrátt fyrir að konan hafi hætt við að sækja efnin á pósthús, þar sem hún fékk slæma tilfinningu, þá sé hafið yfir skynsamlegan vafa að þau hefðu gerst sek um tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots. Voru þau dæmd í 12 mánaða fangelsi hvort um sig. 

Héraðssaksóknari ákærði parið, Nathöshu Euredise Juliettu Matil og Phillip Kernel Smith, sem bæði eru erlendir ríkisborgarar, fyrir tilraun til stórfells fíkniefnalagabrots, með því að hafa, í félagi gert tilraun til að taka við 1.093,38 g af kókaíni, með styrkleika 62–64%, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Efnin falin í hliðum pappakassa sem innihélt vínylplötur

Fíkniefnin voru falin í hliðum pappakassa sem innihélt vínilplötur og heyrnartól, sem kom hingað til lands með póstsendingu frá öðru landi miðvikudaginn 18. október 2023 en lögreglan lagði hald á sendinguna og fjarlægði efnin úr umbúðunum.

Matil og Smith áttu að fá greiddar 1.000 evrur fyrir að taka á móti pakkanum og þriðjudaginn 24. október 2023 fór Matil á pósthús í Reykjavík og spurði um pakkann sem var stílaður á Smith. Hún veitti pakkanum ekki viðtöku heldur sagði starfsmanni að annar aðili kæmi að sækja hann. Á meðan stóð Smith fyrir utan pósthúsið en hann fylgdi Matil fast á eftir er hún gekk frá pósthúsinu og sameinuðust þau við Suðurlandsbraut og gengu sem leið lá niður í miðbæ Reykjavíkur. Þau voru síðar handtekin en neituðu bæði sök. 

Sendingin reyndist innihalda vínylplötur og heyrnartól en svo virtist sem …
Sendingin reyndist innihalda vínylplötur og heyrnartól en svo virtist sem búið væri að koma einhverju fyrir í hliðum pappakassans. Stungið var með nál á hliðar kassans og kom þá út hvítt duft sem svaraði jákvætt á fíkniefnaprófi sem kókaín. Ljósmynd/Colourbox

Var við eftirlit með erlendum bögglapósti í póstmiðstöð

Í dómi héraðsdóms, sem féll 20. febrúar en var birtur í dag, segir að upphaf málsins hafi verið það að starfsmaður tollgæslu, sem var við eftirlit með erlendum bögglapósti í póstmiðstöð, hafi tekið sendingu til skoðunar 18. október 2023.

Sendingin reyndist innihalda vínylplötur og heyrnartól en svo virtist sem búið væri að koma einhverju fyrir í hliðum pappakassans. Stungið var með nál á hliðar kassans og kom þá út hvítt duft sem svaraði jákvætt á fíkniefnaprófi sem kókaín.

Móttakandi sendingarinnar var skráður K. Smith í Reykjavík en hann fannst ekki við leit í þjóðskrá. Ekki kemur fram hver var sendandi.

Földu kókaínið í pappanum sjálfum

Þá kemur fram að lagt hafi verið hald á sendinguna og hún afhent lögreglu til frekari rannsóknar. Við skoðun var staðfest að um væri að ræða kókaín sem falið hafði verið inni í pappakassa, þ.e. pappanum sjálfum. Fíkniefnin voru fjarlægð og gerviefnum komið fyrir í stað þeirra og kassinn síðan látinn fara sína leið í meðförum póstsins.

Í dómnum kemur fram, að pakkanum hafi verið ekið út að skráðu heimilisfangi síðdegis 23. október. Ekki var tekið við pakkanum og í framhaldi var hann færður á pósthúsið þar sem hann fór í hillu að morgni 24. október.

Lögreglan fylgdist með

Fylgst var með pakkanum og kl. 11:28 kom Matil inn í afgreiðsluna og spurði um pakkann. Fylgdust lögreglumenn með þessu. Stuttu síðar sagði hún við afgreiðslukonu að hún ætlaði ekki að taka pakkann heldur myndi annar koma og sækja hann síðar. Við svo búið yfirgaf hún pósthúsið. Á sama tíma höfðu lögreglumenn orðið varir við Smith sem fylgdist með pósthúsinu.

Er Matil gekk frá pósthúsinu fylgdi hann henni fast á eftir og kviknaði því grunur um að þau hefðu staðið saman að því að fara á pósthúsið til að sækja pakkann en einnig kviknaði grunur um að þau hefðu orðið vör við eftirlit og því hætt við að sækja pakkann og yfirgefið pósthúsið.

Er ákærðu voru komin að Suðurlandsbraut sameinuðust þau og gengu saman niður í miðbæ, um Suðurlandsbraut, Skipholt og Laugaveg, með viðkomu í vínbúð og á fleiri stöðum. Við skyggingu sáu lögreglumenn hvar þau litu ítrekað í kringum sig og horfðu inn í alla bíla sem voru í kringum þau. Töldu lögreglumenn greinilegt að þau væru að leita eftir eftirliti lögreglu.

Parið átti að að fá greiddar 1.000 evrur fyrir að …
Parið átti að að fá greiddar 1.000 evrur fyrir að móttaka pakkann, en það samsvarar um 150.000 kr. Ljósmynd/Colourbox

Handtekin við komuna til baka

Þá segir að þau hafi farið inn á hótel á Laugavegi og komið stuttu síðar út, en þá hafði Matil sett upp húfu. Ákærðu gengu áfram um miðborgina en síðar aftur að hótelinu, sóttu þá tvær flugfreyjutöskur og gengu með þær eftir Laugavegi að Hlemmi þar sem þau tóku leigubifreið að öðru húsnæði. Þar fóru þau inn með því að opna lyklabox, en um er að ræða herbergi í skammtímaútleigu. Ákærðu fóru einu sinni út og sóttu sér mat en voru síðan handtekin í íbúðinni við komuna til baka.

Parið heimilaði skoðun á farsímum sínum. Í síma Matil mátti sjá að hún hafði flett upp sendingarnúmeri pakkans. Þá kom í ljós að maðurinn bar nafnið Phillip K. Smith en nafnið á póstsendingunni var K. Smith.

Við rannsókn málsins kom í ljós að ákærða fékk þann 11. október sl. sent Read2burn-skjal í síma sinn með upplýsingum um framangreinda póstsendingu. Þremur dögum síðar pantaði hún gistingu fyrir tvo hjá dagana 16.–19. október og degi síðar bókaði hún ferð fyrir sig og meðákærða til Íslands.

Átti að taka á móti sendingunni og koma í hendur annarra

Fram kemur í dómnum að málið lúti að innflutningi á talsverðu magni fíkniefna og ljóst sé að verðmæti þess sé umtalsvert.

„Sú aðferð sem beitt var við innflutning fíkniefnanna, að notast við milliliði og skipta hlutverkum, er þekkt og hefur þann tilgang að koma því til leiðar að fíkniefnin fari á milli landa frá sendanda til endanlegs móttakanda án þess að löggæsluyfirvöld komist á snoðir um málið eða aðila þess. Algengt er að milliliðir viti einungis hvert þeirra hlutverk er en þekki ekki til annarra í keðjunni. Svo virðist sem hlutverk ákærðu hafi fyrst og fremst lotið að því að taka á móti sendingunni og koma henni í hendur annarra.“

Sögðust hafa ætlað að njóta lífsins á Íslandi

Matil og Smith héldu því fram að þau hefðu ætlað að njóta lífsins hér á landi og skoða sig um. Matil viðurkenndi svo að hafa fallist á að sækja sendinguna á pósthúsið gegn greiðslu. Við skýrslutöku hjá lögreglu yfir Smith kom fram að hann vissi um sendinguna og greiðsluna og hitti manninn sem kom með peninga til þeirra. Hann vissi að A væri sá sem hefði beðið um þetta og kvaðst hafa illan bifur á þeim manni. Þá var sendingin á hans nafni og samkvæmt upplýsingum lögreglu var hann fyrir utan pósthúsið og fylgdist með þegar Matil fór inn til að sækja pakkann.

Í skýrslutöku af Matil 9. nóvember sl. kvaðst hún hafa sagt ákærða að hún væri að fara til Íslands að sækja pakka fyrir A og hefði boðið honum að koma með.

Hætti við á staðnum

Matil byggði á því að rétt væri að sýkna hana þar sem hún hefði fallið frá því að sækja sendinguna. 

„Ákærða kvaðst hafa hætt við að taka á móti sendingunni á pósthúsinu þar sem hún hefði fengið slæma tilfinningu. Hún kvað ekkert annað hafa valdið því að hún hefði hætt við. Rólegt hefði verið á pósthúsinu, starfsmaðurinn almennilegur og hún hefði ekki orðið neins sérstaks vör. Hún hefði sagt við hann að kannski væri rétt að sá sem ætti að fá pakkann myndi sækja hann sjálfur og starfsmaðurinn hefði sagt að það væri best. Fyrir liggur að lögregla fylgdist með ákærðu á pósthúsinu,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Héraðsdómur segir enn fremur að framburður parsins hafi verið bæði óskýr og ótrúverðugur. Ekki hafi verið fullt samræmi í framburði þeirra hjá lögreglu og fyrir dómi og nokkurt misræmi á milli þeirra tveggja. 

Svokallað pútatívt brot

„Með hliðsjón af því sem hér að framan hefur verið rakið um skýringar þeirra, komu þeirra beggja að pósthúsinu til að sækja sendinguna, því að símar beggja ákærðu voru í samskiptum við framangreindan A og öðrum gögnum málsins verður að telja hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi bæði gerst sek um tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots eins og lýst er í ákæru. Verður talið að þar hafi verið um samverknað að ræða en ákærði ferðaðist með ákærðu til landsins í þeim tilgangi að sækja sendinguna, vissi fyrir hvern það var gert og hvað greiða ætti fyrir hana. Þá fylgdist hann með þegar ákærða fór á pósthúsið en sendingin var á hans nafni. Þar sem búið var að fjarlægja fíkniefnin úr sendingunni er um að ræða svokallað pútatívt brot, eins og ákæruvaldið byggir á. Um mikið magn fíkniefna var að ræða af nokkuð háum styrkleika og verður því að líta svo á að þau hafi verið ætluð til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni,“ segir í niðurstöðu dómsins. 

Dómurinn gerði fíkniefnin upptæk og parinu samtals gert að greiða um fimm milljónir kr. í málsvarnarlaun og annan sakarkostnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert