Ný höfrungategund sést á Faxaflóa

Léttir (lat. delphinus delphinus) er sjaldséður við Íslandsstrendur
Léttir (lat. delphinus delphinus) er sjaldséður við Íslandsstrendur Ljósmynd/Alice Lehir

Höfrungategundin léttir (lat. delphinus delphis) sást í gær á Faxaflóa í einni skoðunarferð hvalaskoðunarfyrirtækisins Special Tours.

Edda Elísabet Magnúsdóttir, lektor í líffræði við HÍ, telur það til marks um að framandi tegundir séu að leita nýrra heimkynna vegna loftlagsbreytinga.

Spennandi að sjá nýja tegund

Jonathan Rempel, leiðsögumaður og safnstjóri á hvalasafninu Whales of Iceland, segir það hafa verið spennandi að sjá algjörlega nýja tegund í skoðunarferðinni á mánudaginn. Special Tours haldi gott bókhald um þær tegundir sem sést hafi síðustu 10-12 árin og léttir hafi ekki verið þar á meðal. Jonathan segir höfrungana hafa verið tvo á ferð og að þeir hafi virst í góðu líkamlegu ásigkomulagi.

„Það er þó oft þannig að þegar það sést til tegunda sem nær aldrei sjást, að þá er oft eitthvað vandamál á ferðinni, dýr geta verið veik eða rata ekki aftur. Sem dæmi árið 2022 kom hingað rákahöfrungur, sem aldrei hafði áður sést hér, en tvö dýr rak á land og drápust,“ segir Jonathan.

Hugsar fyrst til loftslagsbreytinga

Edda Elísabet Magnúsdóttir, líffræðingur, segist fyrst hugsa til loftslagsbreytinga þegar hún heyrði fréttirnar. Hún rifjar upp að sama tegund sást í Eyjafirði síðasta sumar og voru þar í talsverðan tíma.

Höfrungategundin léttir sást á Faxaflóa í gær.
Höfrungategundin léttir sást á Faxaflóa í gær. Ljósmynd/Alice Lehir

Hún segir að útbreiðsla þessara hvala nái alveg norður fyrir Bretlandseyjar og því séu þeir ekki svo fjarri heimkynnum sínum, en það teljist þó áhugavert þegar slíkar komur verða tíðari. Edda segir þetta haldast í hendur við annað það sem sé að gerast í sjónum, hitastig hækkar vegna þess varma sem hann hefur verið að gleypa í sig í langan tíma.

„Við sjáum það til dæmis í breytingum á fiskigöngu og eins hvar fiskar eru að velja að hrygna, allt hlutir sem eru mjög háðir hitastigi sjávar,“ segir Edda.

Eru að elstast við fæðu

Hún segist í framhaldinu búast við að sjá breytingu á útbreiðslu þeirra tegunda sem sækja í fiskinn. Í þessu tilviki eru höfrungarnir því að eltast við fæðu. Það getur komið til vegna fæðuskorts „heima fyrir“ eða vegna þess að fæðan er aðgengilegri hér um slóðir.

Ef þessi dýr eru í mjög köldum sjó mjög lengi gæti það farið að hafa áhrif á heilsu þeirra. Þeir eiga þó að þola nokkuð mikla breidd í hitastigi. Það er því mikilvægt þegar þeir eru komnir á svo norðlægar slóðir að þeir finni næga fæðu, og það ætti að vera nóg um hana á Faxaflóa.

Hún segir höfrungana ekki útbúna til langdvala í mjög köldum sjó, líkt og kaldsjávarhöfrunga, sem séu þéttari í sér og með styttri útlimi til þess að minnka varmatap. Þeir gætu því lent í vandræðum komi langvarandi kuldakast með kólnun yfirborðssjávar.

Hrefnu fækkar í talningu og sækir norðar

Edda telur spennandi að sjá hvað komi úr hvalatalningu Hafrannsóknarstofnunar í sumar.

„Við sjáum það að hrefnu hefur fækkað töluvert hér við land síðastliðna áratugi, sem sækir nú fæðu á norðlægari slóðir en Ísland. Hrefna er því orðin æ algengari við Jan Mayen og Svalbarða. Við erum því tvímælalaust að sjá tilfærslu í útbreiðslu tegunda.“

Samhliða hlýnun sjávar getur orðið kólnun sjávar á ákveðnum svæðum suður af landinu vegna bráðnunar Grænlandsjökuls og þeirra áhrifa sem það geti haft á Golfstrauminn.

„Tegundir eins og höfrungar, skjaldbökur og hákarlar sem nýta Golfstrauminn til ferða sinna geta orðið fyrir áhrifum af þessum breytingum.“

Edda telur að dýrin sem nú séu á ferð séu í könnunarleiðangri við Ísland. Þekking þeirra getur svo miðlast til yngri kynslóða og orðið til þess að léttir verði algengari við Íslandsstrendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert