Efling sá ekki tilganginn með að mæta í Karphúsið

Sólveig segir Eflingu ekki hafa séð neina ástæðu til að …
Sólveig segir Eflingu ekki hafa séð neina ástæðu til að setjast við samningaborðið í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Efling situr ekki við samningaborðið í Karphúsinu í dag þar sem breiðfylking stéttarfélaga og Samtök atvinnulífsins sitja nú á samningafundi sem hófst klukkan 10.00 í morgun.

Þetta segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í samtali við mbl.is.

Spurð hvers vegna Efling, sem er hluti af breiðfylkingu stéttarfélaga, sam­flots nokk­urra stærstu stétt­ar­fé­laga inn­an ASÍ – Efl­ing­ar, Samiðnar og Starfs­greina­sam­bands­ins, svarar Sólveig:

„Við sjáum engan tilgang með því að vera þarna í dag.“

„Óásættanlegt að öllu leiti fyrir Eflingu“

„Við áttuðum okkur á því í gær að á sama tíma og Samtök atvinnulífsins eru með kröfur á Eflingu og SGS félögin um launalækkun hjá vissum hópum verkafólks. [....] Opna þau á þegar umsaminn launalið kjarasamningana til þess að bæta í hann. En þau eru ekki að opna á launaliðinn til að færa láglaunafólkinu, sem getur ekki séð fyrir sér og börnum sínum, þau eru að opna launaliðinn til að bæta í hann til þess að færa hálaunahópum Alþýðusambandsins, karlahópunum, frekari hækkanir.“

Sólveig segir þetta óásættanlegt, sérstaklega þar sem það hafi ekki hafa verið auðvelt fyrir Eflingu að ganga frá launaliðnum. Það hafi hins vegar verið gert til þess að ná stóra markmiðinu um að ná hratt niður verðbólgu og vöxtum.

„Þau markmið, eins og þetta blasir við mér núna, virðast aðeins eiga að nást með framlagi verka og láglaunafólks. Hálaunahóparnir eiga ekki að þurfa að taka á sig ábyrgðina og það er auðvitað óásættanlegt að öllu leiti fyrir Eflingu,“ segir Sólveig Anna.

Það var þungt yfir Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambandsins, þegar hann …
Það var þungt yfir Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambandsins, þegar hann mætti á fund til ríkissáttasemjara í Karphúsinu í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engin svör borist frá SA vegna krafna Eflingar og SGS

Til frekari útskýringar segir Sólveig að á sama tíma og SA hafi opnað aftur á launaliðinn til að færa hálaunahópum frekari hækkanir þá hafi SA ekki fallist á mjög sanngjarnar kröfur Eflingar um aukna uppsagnarvernd fyrir Eflingarfólk, eða „tillögur sem kosta nákvæmlega ekki neitt,“ segir Sólveig.

Þá segir hún engin svör hafa borist frá SA vegna krafna sem Efling og SGS hafa sett fram um að leiðrétta kjör þess fólks sem verst hefur það af öllum hópum á íslenskum vinnumarkaði.

„Þeirra fátæku kvenna sem vinna við ræstingar en þau opna á þegar umsaminn launalið kjarasamningana til þess að bæta í hann.“

Samninganefnd Eflingar fer yfir stöðu mála í dag

Spurð hvort Efling sé með þessu að ganga úr breiðfylkingu stéttarfélaga svars Sólveig því til að hún muni funda með sinni samninganefnd í dag til þess að fara yfir stöðu mála með ítarlegum hætti.

„Ráðfæra mig við þau hvað fólk vilji gera þegar þessi veruleiki blasir við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert