FS tekur við hluta af rekstri Keilis - 14 uppsagnir

Keilir miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs.
Keilir miðstöð vísinda fræða og atvinnulífs. mbl.is/Sigurður Bogi

Fjölbrautaskóli Suðurnesja (FS) mun taka við rekstri tveggja námsbrauta sem er nú í rekstri Keilis miðstöðvar vísinda fræða og atvinnulífs. 14 starfsmönnum Keilis hefur verið sagt upp. 

Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta.

Um er að ræða einka- og styrktarþjálfaranám og stúdentsbraut í tölvuleikjagerð sem skólarnir hafa komist að samkomulagi um, en einnig er stefnt að því að FS taki við rekstri fótaðgerðafræðibrautar um næstu áramót. 

Fjölbrautaskóli Suðurnesja.
Fjölbrautaskóli Suðurnesja.

Keilir hefur í áraraðir glímt við fjárhagslegar áskoranir og eru sögð hafa átt frumkvæði að samtalinu um rekstraryfirfærslurnar við FS.

Nemendur munu ljúka vorönn í Keili en verður þar á eftir boðin námsvist í FS þar sem þeim gefst kostur á að ljúka námi að óbreyttu.

FS mun í framhaldinu sinna innritun og kynningu skólastarfs fyrir nýnema. Breytingin hefur engin áhrif á nemendur í Háskólabrú, fótaaðgerðafræði, stökum áföngum í fjarnámi eða annarra námskeiða hjá Keili. 

Í tilkynningu á vef FS er haft eftir Nönnu Kristjönu Traustadóttur, framkvæmdastjóra Keilis:

„Það er fyrst og fremst erfitt að þurfa að kveðja starfsfólk í ljósi þessara stóru breytinga á skipuriti Keilis. Það er trú mín að FS hafi alla burði til þess að efla námsbrautirnar enn frekar og afar mikilvæg niðurstaða að námsframboð fyrir íbúa Suðurnesja sé óskert. Jafnframt tel ég allar líkur á að starfsemi brautanna komi með góðan innblástur inn í FS, enda urðu þær til í umhverfi nýsköpunarhugsunar og nútímalegrar nálgunar í námi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert