Meirihlutinn í Fjarðabyggð ekki óstarfhæfur

Bæjarkjarnar sveitarfélagsins eru sjö talsins. Mjóifjörður, Norðfjörður,,Eskifjörður, Reyðarfjörður, Fáskrúðsfjörður, Stöðvarfjörður …
Bæjarkjarnar sveitarfélagsins eru sjö talsins. Mjóifjörður, Norðfjörður,,Eskifjörður, Reyðarfjörður, Fáskrúðsfjörður, Stöðvarfjörður og Breiðdalur. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson

Tillaga um breytingar á fyrirkomulagi fræðslumála í Fjarðabyggð var tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar í gær. Fulltrúi Fjarðarlistans, Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, greiddi atkvæði gegn tillögu síns meirihluta á fundi bæjarstjórnar. Hún gagnrýnir lítið samtal við starfsfólk skóla og foreldra. 

Vakti það athygli í gær þegar Ragn­ar Sig­urðsson, odd­viti Sjálf­stæðis­flokks­ins í Fjarðabyggð, sagði meirihluta bæjarstjórnar vera óstarfhæfa vegna óeiningar í kjölfar þess að Hjördís greiddi atkvæði gegn tillögunni. 

Tillaga um sameiningu allra skóla í Fjarðabyggð

Breytingarnar fela í sér sameiningu allra skóla í Fjarðabyggð. Það er að allir grunnskólar sameinist undir Grunnskóla Fjarðabyggðar með starfsstöðvar í hverjum kjarna, allir leikskólar sameinist undir Leikskóla Fjarðabyggðar með starfsstöðvar í hverjum kjarna og að allir tónlistarskólar sameinist undir Tónlistarskóla Fjarðabyggðar með starfsstöðvar í hverjum kjarna.

Markmiðið er að nýta fjármuni betur, auka faglegt samstarf og samlegð í rekstri.

Hjördís kaus gegn tillögunni og gagnrýndi á fundinum skort á samstarfi með öllu skólasamfélaginu, ekki bara skólastjórnendum. 

„Meirihlutinn getur ekki verið sammála um allt“

Hjördís tekur ekki undir ummæli Ragnars og segir það ekki vera hennar upplifun að meirihlutinn sé óstarfhæfur. „Ég styð ennþá meirihlutann þó að ég hafi ekki verið sammála þeim í þessu máli. Meirihlutinn hefur verið í mjög góðu samstarfi.“

Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir hefur verið bæjarfulltrúi Fjarðarlistans frá 2018.
Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir hefur verið bæjarfulltrúi Fjarðarlistans frá 2018. Fjarðabyggð

Hún bætir við að hún líti á meirihlutasamstarfið þannig að ekki geti allir verið sammála alltaf. 

„Ég er nú bara þannig þenkjandi. Við erum níu í bæjarstjórn og getum ekki verið sammála um allt. Ég kýs eftir minni sannfæringu, mér fannst skortur á samráði.“

Hefur gagnrýnt tillöguna við meirihlutann

Jón Björn Hákonarson, forsetar bæjarstjórnar, segir vinnu að tillögunni fyrst hafa farið fram í starfshóp, sem var gert að fara yfir fræðslumál í Fjarðabyggð. Hópurinn lagði fram fjórar sviðsmyndir.

í framhaldinu var ákveðið að endurskipa í starfshópinn. Kjörnir fulltrúar úr öllum flokkum bæjarstjórnar tóku þá sæti í hópnum og lögðu fram tillögur að breytingum með aðstoð stjórnendum úr skólastarfinu. 

Síðan fór tillagan fyrir stjórnkerfisnefnd og var að lokum lögð fram í bæjarstjórn. 

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar 2022 - 2026.
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar 2022 - 2026. Ljósmynd/Fjarðabyggð

Samkvæmt ummælum Ragnars kom það honum á óvart að meirihlutinn hafi ekki kosið allur með tillögunni. Á bæjarstjórnarfundinum gagnrýnir hann að nú sé kosið gegn tillögunni en öll vinna í starfshópnum hafi farið fram undir því yfirskini að um væri að ræða þverpólitískan vinnu. 

Hjördís segir að hún hafi komið sínum skoðunum á framfæri við meirihlutann áður en kosning fór fram.

„Ég var ekki í starfshópnum sem vann að tillögunni en ég hef verið mjög skýr við minn meirihluta hvar ég stend í þessu máli og hef gagnrýnt lítið samráð,“ segir hún.

Það á því ekki að hafa komið meirihlutanum á óvart að hún hafi kosið gegn þessari tillögu segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert