Kvikusöfnun komin upp í um 9 milljónir rúmmetra

Líkanreikningar sýna að í dag hafa um 8,5-9 milljónir rúmmetra …
Líkanreikningar sýna að í dag hafa um 8,5-9 milljónir rúmmetra af kviku safnast fyrir undir Svartsengi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 8,5 til 9 milljónir rúmmetrar af kviku hafa safnast undir Svartsengi samkvæmt líkanreikningum.

Í fyrri eldsumbrotum á Reykjanesskaganum hefur gos brotist út þegar kvikumagnið hefur náð 8 til 13 milljónum rúmmetra.

Um hálf milljón rúmmetrar af kviku safnast undir Svartsengi á sólarhring. Ef kvikusöfnun heldur áfram með sama hraða nást efri mörk í næstu viku.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.

Áfram eru taldar auknar líkur á eldgosi næstu daga og þykir líklegast að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Gæti það hafist með mjög stuttum fyrirvara.

Tekið er fram að hraðinn á landrisinu á svæðinu hafi haldist nokkuð stöðugur síðustu daga en að öllu jöfnu hafi dregið úr hraða landrissins þegar að eldgos nálgast.

Hættumat Veðurstofu Íslands helst óbreytt frá því síðast. Gildir það fram á þriðjudaginn, þann 5. mars.

Línuritið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur …
Línuritið sýnir samanburð á magni af kviku sem safnast hefur undir Svartsengi áður en kvika hleypur yfir í Sundhnúkagígaröðina. Staða kvikusöfnunar 28. febrúar er merkt með rauðu. Magnið er fengið með líkanreikningum byggt á GPS-gögnum og er háð óvissu. Mismiklar breytingar geta einnig sést á milli daga. Fjólubláa línan sýnir magn kviku sem safnaðist áður en kvikugangurinn mikli sem liggur undir Grindavík myndaðist 10. nóvember.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert