Lagasetning gegn Google og Meta kemur til greina

Lilja á málþingi í Grósku, meðal annars um virði frétta.
Lilja á málþingi í Grósku, meðal annars um virði frétta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það kemur vel til greina að skylda stórfyrirtækin Meta (áður Facebook) og Google til að greiða útgefendum fjölmiðla á Íslandi fyrir fréttir sem miðlað er á Google og Meta.

Þetta segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í samtali við mbl.is að loknum málfundi í Grósku um fjölmiðla á tímum stafrænnar byltingar. Þar flutti meðal annars Ayna Schiffrin, forstöðumaður tækni, fjölmiðla- og samskiptadeildar alþjóða- og þjóðmálaskólans við Columbia-háskólann í New York-ríki, erindi.

Kynnti Schiffrin hvernig þjóðir eins og Ástralía og Kanada hafa innleitt í löggjöf sína kvaðir á Meta og Google sem skylda fyrirtækin til að greiða útgefendum fjölmiðla fyrir fréttir. Svona innleiðing er þó ekki hættulaus. Meta hætti til dæmis dreifingu frétta tímabundið í Ástralíu og Kanada í kjölfar innleiðingar.

Fulltrúar fjölmiðla voru meðal gesta á málþinginu.
Fulltrúar fjölmiðla voru meðal gesta á málþinginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland má ekki einangrast

Spurð hvort að álíka lagasetning komi til greina hér á Íslandi segir Lilja svo vera. „Alveg klárlega,“ segir hún og bætir því við að þetta verði einn af möguleikunum sem mun koma fram í drögum fjölmiðlastefnu sem kynnt verður fyrir ríkisstjórn á þriðjudag.

Hún segir þó mikilvægt að passa að Ísland verði ekki einangrað ef farið verður í þessa vegferð.

„En við erum að horfa á þetta til þess að afla tekna og í raun og veru svo íslenskir fjölmiðlar fái greitt fyrir vinnuna sína. Þess vegna erum við að fara mjög vel í saumana á þessari áströlsku löggjöf og kanadísku,“ segir Lilja.

Hún segir mikið vera í húfi fyrir íslenskt samfélag og fjölmiðla og segir það vera forgangsmál hjá sér út kjörtímabilið að tryggja rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Umræða um lagasetningu gæti fengið Google að borðinu

Blaðamaður náði tali af Schiffrin eftir að hún lauk erindi sínu og spurði hvernig lítil þjóð eins og Ísland gæti tekið slaginn við fyrirtæki eins og um er rætt. Schiffer svarar því að stjórnvöld þurfi að skoða það að vera í samfloti með Evrópusambandinu við innleiðingu reglugerðar er þetta varðar.

Ayna Schiffrin, forstöðumaður tækni, fjölmiðla- og samskiptadeildar alþjóða- og þjóðmálaskólans …
Ayna Schiffrin, forstöðumaður tækni, fjölmiðla- og samskiptadeildar alþjóða- og þjóðmálaskólans við Columbia-háskólann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þið verðið að meta hversu mikið þið reiðið ykkur á Google og leitarvél þeirra, reikna svo út hvað sanngjörn greiðsla frá þeim yrði. Og ég held að umræða um lagasetningu sé ein leið til að minna þá á að þeir (Google og Meta) bera ákveðnar skyldur og það virkar oft til að fá þá að borðinu,“ segir Schiffrin.

Hún segir mikilvægt ræða mögulega lagasetningu og að vanda rannsóknarvinnuna vel til að tryggja að Google greiði meiri.

Segir Meta reyna gera lítið úr fréttum

Spurð út í áhættuna sem þessu gæti fylgt eins og til dæmis ef Meta myndi hætta dreifingu frétta á Íslandi, segir hún að fyrirtækin væru ekki að berjast gegn þessum lagasetningum nema þau vildu vera með dreifingu frétta á sínum miðlum.

„Það sem þessi fyrirtæki eru að segja er „fréttir skipta ekki máli“. Samt sem áður, alls staðar í heiminum þar sem fólk er að krefjast þess að þau borgi, eru þau ekki að ganga frá borðinu – þau eru að berjast. Ef fréttirnar skipta ekki máli, af hverju eru þau (Google og Meta) að berjast gegn lagasetningunum,“ segir Schiffrin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert