Landris jókst í kjölfar hlýnunar

Sigurjón Jónsson er prófessor í jarðeðlisfræði við King Abdullah-tækniháskólann í …
Sigurjón Jónsson er prófessor í jarðeðlisfræði við King Abdullah-tækniháskólann í Sádi-Arabíu og hefur meðal annars fylgst með landrisi á Íslandi ásamt samstarfsfólki sínu við skólann. Ljósmynd/Aðsend

„Það sem Þorvaldur [Þórðarson prófessor] er að vísa í þarna, að landið sé að lyftast, þá eru þetta meðal annars niðurstöður úr mælingum sem við höfum verið að framkvæma úr svokölluðum radargervitunglum,“ segir Sigurjón Jónsson, prófessor í jarðeðlisfræði við King Abdullah-tækniháskólann í Sádi-Arabíu, KAUST, í samtali við mbl.is.

Vísar Sigurjón þar til viðtals Morgunblaðsins við Þorvald á mánudaginn, 26. febrúar, þar sem hann ræðir lyftingu, eða ris, Íslands og kastar fram þeirri spurningu hvort hækkun landsins megi tengja aukinni virkni svokallaðs möttulstróks, megindrifkrafts flekahreyfinga jarðskorpunnar sem W.J. Morgan smíðaði kenningu um árið 1971.

„Radargervitungl geta mælt hreyfingar á jörðu og hafa verið mikið notuð, til dæmis til að fylgjast með því hvernig risið er í Svartsengi og líka þegar gangainnskot koma, eins og við Fagradalsfjall og austan við Svartsengi,“ útskýrir prófessorinn.

Segir hann myndirnar í raun vera grunninn að korti yfir hreyfingar lands og aflögun. Sigurjón og samstarfsfólk hans – Yunmeng Cao og Sigrún Hreinsdóttir – skoðuðu landrishreyfingar á öllu Íslandi og birtu niðurstöðurnar í greininni Iceland Kinematics from InSAR sem birtist í tímaritinu Journal of Geophysical Research í fyrra.

Rismiðjan við vesturjaðar Vatnajökuls

Notuðu þau mælingar yfir tímabilið 2015 til 2021 og unnu úr nokkur þúsund radarmyndum, „því fleiri myndum sem maður vinnur úr þeim mun betri mynd fær maður af því hvernig hreyfingarnar eru“, segir Sigurjón og kveður það einna athyglisverðast í niðurstöðunum að miðhálendi Íslands lyftist um tvo til þrjá sentimetra á ári.

Mynd úr grein Sigurjóns og samstarfsfólks hans sem sýnir landris …
Mynd úr grein Sigurjóns og samstarfsfólks hans sem sýnir landris á Íslandi sem mest kveður að við vesturjaðar Vatnajökuls eins og glöggt má sjá. Mynd/Úr grein

„Sem er hellingur og rismiðjan er við vesturjaðar Vatnajökuls, þar nær risið þremur sentimetrum og fellur svo eftir því sem nær dregur ströndunum og svo er jafnvel um sig að ræða við ströndina,“ heldur Sigurjón áfram og segir hreyfingar þessar mjög greinilegar, en annað sem sjáist greinilega í radarmælingum sé gliðnun Íslands.

„Þetta er auðvitað vitað, að Norður-Ameríkuflekinn færist frá Evrasíuflekanum og þetta eru tæpir tveir sentimetrar á ári í láréttri hreyfingu, Austurlandið færist frá Vesturlandinu um tvo sentimetra á ári,“ segir Sigurjón og nefnir aðra athyglisverða niðurstöðu mælinganna sem sé sú að flestar brekkur á Íslandi séu að síga með jarðvegsskriði.

„Hvar sem þú ert með halla í landinu, til dæmis ef þú ferð út á land og skoðar heiðar sem allar eru þaktar jarðvegi og gróðri, þá er þetta að síga undan hallanum og þetta sjáum við líka í nánast öllum dölum landsins,“ segir hann en játar þó að þessi niðurstaða rannsakendanna þriggja sé að mestu ótengd risi landsins og hnigi.

Þungi í snjóþekjunni

„Við teljum nokkuð ljóst að stærstur hluti þessara rishreyfinga á miðhálendinu sé vegna þess að jöklar eru að bráðna og fargið að minnka, því rís landið þegar það sígur undan þungu fargi og þetta sjáum við líka í árstíðasveiflunni,“ segir Sigurjón og útskýrir þá sveiflu nánar.

Gangi hún út á að snjófargið á hálendinu á veturna þjappi landinu saman um nokkra sentimetra „og svo þegar snjóa léttir þá poppar þetta upp aftur. Í snjóþekjunni er heilmikill þungi þar sem hún nær yfir svo stórt svæði þótt hún sé kannski ekki nema nokkurra tuga sentimetra þykk. Við sjáum að landið rís um að meðaltali þrjá sentimetra á ári en svo kemur þessi árstíðasveifla ofan á það vegna snjófargs.“

Aðspurður segir Sigurjón mælingar á þessum vettvangi ekki ná nema nokkra áratugi aftur í tímann, því sé verr og miður. „Í raun er ekki auðvelt að mæla þetta því þótt þetta séu einhverjir sentimetrar á ári nær þetta yfir svo rosalega stórt svæði, það var eiginlega ekkert hægt að mæla þetta fyrr en á síðustu áratugum,“ segir hann.

Fjaðrandi fargbreytingar

Séu mælingar þeirra greinarhöfundanna þriggja og eldri mælingar annarra teknar til skoðunar segir Sigurjón að greina megi að landið rísi nú hraðar en fyrir tuttugu árum. „Þetta getum við tengt því að bráðnun jökla er að verða hraðari og því er fargléttingin að verða hraðari líka. Að tengja þetta við möttulstrókinn eða jafnvel púlsa í möttulstróknum er dálítið spennandi en við höfum lítið fyrir okkur til að tengja við það.

Við virðumst geta skýrt þessar hreyfingar með líkönum af fargbreytingum, því sem við köllum fjaðrandi eða „elastískar“ fargbreytingar vegna nýlegrar bráðnunar jökla en svo eru líka seigfjaðrandi hreyfingar sem við sjáum í dag sem eru tengdar breytingum á jöklum síðustu áratugina, til dæmis var frekar kalt tímabil á Íslandi í lok 19. aldar og þá stækkuðu jöklar, en svo minnkuðu þeir talsvert á síðustu öld,“ útskýrir Sigurjón.

COSMO-Skymed-bylgjuvíxlmynd frá 18. - 19. nóvember í fyrra. Merki um …
COSMO-Skymed-bylgjuvíxlmynd frá 18. - 19. nóvember í fyrra. Merki um landris sést í appelsínugulu og rauðu litunum í kringum Svartsengi sem gefur til kynna djúpa þenslu. Kort/Veðurstofa Íslands

Hann bendir á að land rísi mun hraðar á Íslandi en til dæmis í Skandinavíu þar sem möttullinn undir Íslandi sé mjög heitur og svari því mun hraðar en möttullinn undir Skandinavíu þar sem land sé enn að rísa síðan níðþungt og þykkt jökulfargan yfirgaf svæðið fyrir tíu þúsund árum.

„Fyrir botni Eystrasaltsins er rishraði til dæmis enn töluverður þannig að þorp sem voru við sjávarsíðuna á víkingaöld eru komin langt inn í land. Svörunin við þessum fargbreytingum fyrir tíu þúsund árum eru allar gengnar um garð á Íslandi, en við þekkjum jökulsöguna reyndar ekki mjög vel, þetta er svona mat hversu stórir jöklar voru á síðustu tveimur öldum og hvernig sú þróun var, þar er töluverð óvissa,“ tekur Sigurjón Jónsson fram að lokum, prófessor í jarðeðlisfræði í Sádi-Arabíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert