Skemmdir í hreyflum raktar til sands

Skemmdir á hreyflum Boeing 737-Max vélanna eru raktar til sands …
Skemmdir á hreyflum Boeing 737-Max vélanna eru raktar til sands sem notaður er, meðal annars á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Síðan Icelandair tók Boeing 737-MAX flugvélar til notkunar hafa komið fram skemmdir í nokkrum hreyflum sem eru líklega vegna sands sem notaður er í hálkuvarnir á Keflavíkurflugvelli.

Þetta segir Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Icelandair, í samtali við mbl.is.

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, staðfestir í samtali við mbl.is að að undanförnu hefur verið notaður sérframleiddur sandur, en segir hann að sá sandur hafi reynst vel og sé í samræmi við ákveðna staðla. Var þessi sandur tekinn til notkunar árið 2019 og árið 2021 var svo gerð ný útgáfa af þessum sérframleidda sandi.

„Isavia og Icelandair halda áfram að vinna að því að greina möguleg áhrif ef einhver eru og bregðast við,“ segir Guðjón í skriflegu svari við mbl.is.

Vandamálið snertir nýjar tegundir hreyfla 

Vandamálið virðist aðallega eiga við um nýja og sparneyttari hreyfla segir Sylvía. Hún segir að þeir séu viðkvæmari fyrir sandinum og að blöðin í hreyflunum slitni hraðar. Þá segir Sylvía að mörg flugfélög í heiminum séu að glíma við þetta vandamál.

Hreyflarnir á Boeing 737-MAX vélum Icelandair eru af gerðinni CFM LEAP 1B og eru þeir hreyflar léttari og sparneytnari en eldri kynslóðir af hreyflum.

„Það er ekki gott að það hefur verið notaður sandur í Keflavík til þess að vera með hálkuvarnir. Það er betra að vera með önnur efni fyrir þessar hreyflatýpur. Þetta hefur til dæmis minni áhrif á innanlandsflotann sem er með minni hreyfla,“ segir Sylvía í samtali við mbl.is. 

Hafa flýtt skoðunum í einhverjum tilvikum

Sylvía segir að skoðanir á hreyflum Boeing 737-Max flugvéla Icelandair og tíðni þeirra séu í samræmi við vottaða viðhaldsstaðla sem almennt gilda fyrir öll flugfélög.

„Icelandair hefur í einhverjum tilvikum ákveðið að flýta skoðunum í þeim tilgangi að fækka þeim tilvikum á háannatíma þegar taka þarf flugvélar tímabundið úr rekstri vegna slíkra skoðana,“ segir hún í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is og bætir við:

„Frá því að Icelandair hóf rekstur Boeing 737-Max flugvéla hafa komið fram skemmdir í nokkrum hreyflum sem líklegt er að séu vegna sands. Þegar afísa þarf flugbrautir, akstursbrautir og flughlöð er algengt að notaður sé til þess afísingarvökvi. Slíkur vökvi hentar ekki alltaf á Íslandi, til dæmis í skafrenningi. Á Keflavíkurflugvelli er því sandur oft notaður á flughlöð þegar afísingarvökvi dugir ekki til. Sandurinn þarf að vera í samræmi við ákveðna staðla og hefur Icelandair í áraraðir unnið með Isavia varðandi efnisval og aðferðir við slíka afísingu.“

Ekki verið vandamál hjá Play

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir í samtali við mbl.is að þetta vandamál hafi verið í umræðunni og sé ekki bundið bara við Ísland. Hann segir hreyfla á vélum Play ekki hafa hlotið skaða af sandinum. Þó kveðst Birgir hafa heyrt að að það séu ákveðnar tegundir af flugvélum, þó ekki í flota Play, þar sem þetta vandamál með hreyflanna hefur skotið upp kollinum oftar en ella.

Guðjón segir að Isavia hafi unnið í samstarfi við Icelandair í áraraðir að því að gæta að efnisvali og þeim aðferðum sem notaðar eru við hálkuvarnir á Keflavíkurflugvelli.

„Þá erum við einnig í góðu sambandi við flugvélaframleiðendur um slíkt og leitum ráða og lausna hjá flugvöllum í öðrum löndum þar sem veðurfar er sambærilegt. Sandur er nýttur til hálkuvarna á flugvöllum víða um heim eins og til dæmis í Ósló, Stokkhólmi og Helsinki. Á síðustu misserum höfum við notast við sérframleiddan sand til hálkuvarna sem hefur reynst vel,“ segir Guðjón.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert