VG nær ekki manni á þing

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enginn þingmaður Vinstrihreyfingar – græns framboðs myndi komast á þing ef gengið yrði til kosninga í dag, miðað við niðurstöður nýrrar könnunar Þjóðarpúls sem gerð var í febrúar.

Ríkisútvarpið greinir frá niðurstöðunum en þar kemur fram að VG mælist með 4,7% fylgi. Er það fyrir neðan þau fimm prósenta mörk sem eru skilyrði fyrir því að flokkar fái uppbótarþingmenn.

Lækkar fylgi flokksins jafnframt frá síðasta Þjóðarpúlsi þar sem flokkurinn mældist með 5,5% fylgi. 

Samfylkingin með mesta fylgið

Samkvæmt nýjustu niðurstöðum lækkar fylgi Samfylkingarinnar lítillega milli kannanna, eða úr 30,6% í síðasta Þjóðarpúlsi í 28,2%. Flokkurinn mælist þó enn með mesta fylgið.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir jafnframt lítillega við sig fylgi, fer það úr 18,2% í síðustu könnun í 19,9%.

Miðflokkurinn mælist með mesta fylgi síðan í febrúar árið 2020, eða 12,8%.

Þá mælist Framsókn með 8,8% fylgi, Píratar með 8,0%, Viðreisn með 7,5%, Flokkur fólksins með 6,8% og Sósíalistar með 3,5%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert