„Besti dagurinn í marga daga“

Ástráður ræddi við fulltrúa SA og breiðfylkingarinnar í Karphúsinu í …
Ástráður ræddi við fulltrúa SA og breiðfylkingarinnar í Karphúsinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fundur breiðfylkingar stéttarfélaga og Samtaka atvinnulífsins (SA) gekk afar vel í dag að mati ríkissáttasemjara, sem segir daginn í dag þann besta í langan tíma. Áfram er unnið að því að reyna að landa lang­tíma­kjara­samn­ingi.

Fundinum lauk klukkan 17 en þar sátu fulltrúar SA og breiðfylkingarinnar, þ.e. Samiðnar, SGS og Eflingar. 

Efling er aftur komin að borðinu eftir að hafa stigið tímabundið til hliðar í vikunni. VR og LÍV slitu sig frá breiðfylkingunni á föstudaginn í síðustu viku. 

Góðar viðræður sem halda áfram í fyrramálið

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segir viðræður hafa gengið mjög vel.

„Þetta var góður fundur og við náðum góðum framgangi í málinu í dag,“ segir Ástráður í samtali við mbl.is. Hann vildi þó ekki greina nánar frá framgangi fundarins.

„En [þetta var] fínn framgangur og besti dagurinn í marga daga.“

Hefur Ástráður nú boðað annan fund klukkan 10 í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert