Klukkutíma að rýma Grindavík

Horft yfir Grindavík fyrir rúmri viku. Um klukkustund tók að …
Horft yfir Grindavík fyrir rúmri viku. Um klukkustund tók að rýma bæinn í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Rýmingin gekk bara vel, ætli við höfum ekki verið fjörutíu mínútur með Bláa lónið,“ segir Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn í lögreglunni á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is og kveður um 800 manns hafa verið í lóninu um tvöleytið í dag samkvæmt þeim upplýsingum sem lögregla hafi fengið þaðan.

Þá hafi einhverjir gestir verið í gistingu í lóninu, einhverjir tugir að sögn Gunnars sem kveður starfsfólk Bláa lónsins orðið allsjóað í rýmingum eftir það sem á undan er gengið. „Þau eru nú orðin dálítið æfð í þessu, hvort tveggja í raunatvikum og æfingum,“ segir yfirlögregluþjónninn og bætir því við aðspurður að rýming Grindavíkur hafi einnig gengið fljótt og vel fyrir sig.

Hefðbundinn lokunarfasi næst

„Grindavík rétt rann yfir klukkutímann,“ segir hann en kveðst ekki vera kunnugt um hve margir íbúanna hafi verið í bænum þegar til rýmingarinnar kom.

Næstu skref segir hann vera hinn hefðbundna lokunarfasa sem fólk þekki orðið vel, það er lokun þriggja helstu aðkomuleiðanna að Grindavík, Grindarvíkurvegar, Nesvegar og Suðurstrandarvegar.

„Svo er einhverjum verktakastarfsmönnum haldið þarna eftir, ýtumönnum og gröfumönnum, upp á að þurfa að fylla upp í göt þar sem vegir liggja gegnum varnargarðanna, eins og til dæmis Grindavíkurvegurinn. Annars er þetta bara biðstaða núna. Allir vita jú að það er gos fram undan en hvort það verður núna eða á morgun eða á mánudaginn það er ansi erfitt að segja,“ eru lokaorð Gunnars Schram yfirlögregluþjóns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert