Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs óbreytt

Lánshæfiseinkunn er óbreytt í A og eru horfur stöðugar samkvæmt nýju lánshæfismats fyrirtækisins Fitch Ratings. 

Greint er frá þessu á vef Stjórnarráðsins og segir að lánshæfiseinkunnin „endurspegli miklar tekjur á mann og góða stjórnarhætti sem eru sambærilegri við lönd með AAA og AA lánshæfiseinkunn“.

Til styrkleika í matinu teljast verulegar lífeyrissjóðseignir, traust fjármálakerfi og sterkir efnahagsreikningar einkageirans. Smæð hagkerfisins, einsleitni útflutnings og háar opinberar skuldir halda aftur af einkunninni.

„Aukin tiltrú á markverða og viðvarandi lækkun í skuldahlutfalli hins opinbera, meiri leitnivöxtur þjóðarbúsins og/eða vísbendingar um aukna fjölbreytni hagkerfisins sem minnka næmni Íslands gagnvart ytri áföllum gætu haft jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.“

Þá segir í tilkynningunni að markvert verra skuldahlutfall hins opinbera, til dæmis vegna viðvarandi slaka í ríkisfjármálum, eða alvarlegt efnahagsáfall, til dæmis vegna skarprar leiðréttingar á fasteignamarkaði gætu haft neikvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert