Tók hræðileg skilaboð nærri mér

„Ég bjó mér til nýtt líf úr bókstaflega engu og …
„Ég bjó mér til nýtt líf úr bókstaflega engu og set nú lífið mitt á samfélagsmiðla fyrir aðra að sjá. Ég er svo ánægð að ég lét drauma mína rætast,“ segir Kyana Sue Powers sem var staðráðin í að flytja til Íslands og lét ekkert stöðva sig.

Ást Kyönu Sue Powers á Íslandi var slík að hún hætti ekki fyrr en hún fékk dvalarleyfi á landinu, sem var ekki létt verk, enda er hún frá Bandaríkjunum og átti engin tengsl við Ísland. En nú býr hún hér og starfar í eigin fyrirtæki, Krafti Media, sem sérhæfir sig í landkynningu en auk þess er hún ráðgjafi fyrir fyrirtæki sem vilja koma sér á framfæri á samfélagsmiðlum. Kyana bauð blaðamanni í heimsókn í fallega íbúð sína í Reykjavík þar sem hún býr ásamt íslenskum kærasta, Viktori Má Snorrasyni.

Seldi allar mínar eigur og fór

Þegar Kyana hóf að rannsaka hvernig hún gæti látið draum sinn rætast, sá hún að það var á brattann að sækja.

„Það er nánast ómögulegt fyrir þann sem ekki er með evrópskt vegabréf að fá að flytja hingað, en ég var alveg ákveðin í að láta það ganga. Ég reyndi að leita að vinnu hér en það var erfitt, en ég sendi ótal tölvupósta en fékk engin svör. Ég ákvað þá að koma hingað og þar sem ég er skemmtilegur persónuleiki hélt ég að ég gæti heillað fólk ef ég væri á staðnum. Það gekk ekkert betur,“ segir hún og hlær.

„Ég seldi allar mínar eigur í Boston og kom hingað með nokkrar ferðatöskur og kunni ekkert á kerfið; þekkti hér engan, kunni ekki að leita mér að íbúð og var ekki með vegabréfsáritun annað en það sem ferðamenn fá. Ég átti ekki mikla peninga en var algjörlega sannfærð um að þetta myndi allt reddast, því í mínum huga var ég flutt til Íslands,“ segir Kyana og segist hafa byrjað á að fá vinnu í gegnum Workaway sem gengur út á að fólk vinni sjálfboðavinnu fyrir mat og húsnæði. Kyana fékk þá vinnu hjá fjölskyldu í Breiðholti við að hjálpa til á heimilinu og með börnin. Á sama tíma reyndi hún að fá sér launaða vinnu, en til þess þarf vinnuveitandinn sjálfur að sjá um öll tilskilin leyfi; nokkuð sem hún segir afar fáa vilja leggja á sig.

„Í raun mátti ég bara vera í þrjá mánuði en það er ekki verið að fylgjast með manni, en ég vildi ekki brenna allar brýr að baki mér og fór heim eftir þrjá mánuði um jólin og var þar í tvo mánuði. Ég bjó þá hjá foreldrum mínum og þénaði smá pening við barnapössun og ætlaði alltaf aftur,“ segir hún.

„Áður en ég fór heim hafði ég heyrt að ef maður lærði að vera jöklaleiðsögumaður gæti maður fengið vinnu og þá vegabréfsáritun, því það væru svo fáir í því starfi og vantaði alltaf fleiri. Þannig að ég kom aftur og tók námskeið í því að verða jöklaleiðsögumaður; manneskja sem aldrei hafði áður stigið fæti á jökul, og vonaðist eftir að fá vinnu þegar ég kæmi aftur,“ segir hún og brosir.

Stofnaði fyrirtæki og réð sjálfa mig

Eftir að Kyana kom aftur til Íslands reyndi hún allt sem hún gat til að fá vinnu við jöklaleiðsögn og loks leit út fyrir að hún væri búin að fá vinnu. Þetta var í byrjun árs 2020 og covid var þá nýfarið að láta á sér kræla. Vinnan við ferðamennsku datt því upp fyrir.

„Á þessum tíma átti ég í raun ekkert heimili hér en fékk að búa hjá manni sem rak pulsusölu, en hann var þá í fríi erlendis. Svo kom covid og ég hafði í engin hús að venda og ég neyddist til að fara til Bandaríkjanna og augljóslega fékk ég ekkert að koma aftur því allt lokaðist,“ segir Kyana.

„En þrá mín til að búa hér á landi var svo sterk að ég hafði til vonar og vara sótt um árinu áður háskólanám hér í íslensku sem öðru tungumáli því þá fengi ég að minnsta kosti vegabréfsáritun sem nemandi. Það var miði minn inn í landið. En námið var auðvitað nánast alfarið á Zoom sem hentaði mér mjög vel og þótt ég væri ekki spennt fyrir náminu, þurfti ég að ná prófum til að fá að vera hér,“ segir hún, en Kyana fékk þá íbúð til leigu í gegnum Airbnb því engir voru hér ferðamennirnir.

„Á þessum tíma byrjuðu stutt myndbönd á TikTok og Reels að verða vinsæl og ég ákvað að byrja að deila lífi mínu á Reels á Instagram. Ég var ekki með neitt plan en lærði þetta smátt og smátt og fór að taka betri myndir og lærði að klippa myndbönd. Þetta var heill heimur sem ég vissi ekkert um en byrjaði bara að skrásetja líf mitt hér á Íslandi og fólk fór að taka eftir mér, ekki bara einstaklingar heldur einnig fyrirtæki sem höfðu áhuga á að vita hvernig þau gætu nýtt sér þessi nýju form á samfélagsmiðlunum til að auglýsa sig. Ég byrjaði að veita fyrirtækjum ráðgjöf hvernig þau ættu að bera sig að,“ segir Kyana og segist einnig hafa stundum búið til myndbönd fyrir fyrirtækin.

Kyana ferðast vítt og breitt um landið og setur myndir …
Kyana ferðast vítt og breitt um landið og setur myndir og myndbönd á Instagram.

„Fólk erlendis sem vildi koma til Íslands fann mig á samfélagsmiðlunum og þetta óx og ég ákvað því að stofna fyrirtæki. Ef ekkert fyrirtæki vildi ráða mig og standa í vegabréfsmálunum, ætlaði ég bara sjálf að stofna fyrirtæki og ráða sjálfa mig í vinnu. Það er kannski að fara eftir krókaleiðum, en er löglegt.“

Grét yfir hræðilegum skilaboðum

Loks fann Kyana lögfræðing sem taldi sig geta hjálpað. Áfrýjað var bæði til að fá atvinnuleyfi og dvalarleyfi. Aftur gekk illa að fá jákvæð svör og klukkan tifaði.

„Síðan hófst stríðið í Úkraínu og flóttamenn tóku að streyma hingað og ég var ekki í forgangi. Ég var rosalega stressuð og var næstum að missa vonina. Þetta var kostnaðarsamt en vinnan mín gekk vel og ég vildi ekki gefast upp. Eftir mikið stapp fékk ég að lokum leyfið á þeim grundvelli að það væri skortur á fólki sem ynni á sviði samfélagsmiðla. Mörg fyrirtæki hér skrifuðu meðmælabréf og ég skilaði einnig inn fjölda skilaboða frá fólki erlendis sem sagði ég hefði hjálpað þeim að skipuleggja ferð sína hingað,“ segir hún en þess má geta að Kyana er nú með hálfa milljón fylgjenda og hafði einnig gert stuttmynd um líf sitt hér, en Kyönu má finna á Instagram undir nafninu kyanasue.

„Það var mikið skrifað um þetta á sínum tíma á Íslandi og ég fékk mikinn stuðning frá Íslendingum en það sama er ekki hægt að segja um útlendinga sem hér voru. Þeir sendu mér haturspósta því hér var slegið upp í fyrirsögnum að „áhrifavaldur vill fá dvalarleyfi“ og þau héldu að ég væri bara einhver samfélagsmiðlastjarna að væla í fjölmiðlum, sem hafði ekkert reynt eða gert sjálf til að fá að vera hér. Ég fékk fjölda skilaboða frá fólki sem hataði mig og sagði hræðilega hluti um mig, en fékk svakaleg falleg skilaboð frá Íslendingum,“ segir hún.

„Ég tók mjög nærri mér að fá þessi hræðilegu skilaboð og grét mikið yfir þessu. Mér fannst ég ekki eiga þetta skilið. Fólk þekkti ekki alla söguna.“

Ánægð að ég lét draumana rætast

Eftir langt og skemmtilegt spjall er tími til kominn að slá botninn í samtalið við þessa kraftmiklu ungu konu sem heldur áfram að kynna Ísland.

Kyana hreinlega elskar Ísland og vill að aðrir fái að …
Kyana hreinlega elskar Ísland og vill að aðrir fái að njóta þess að koma hingað. Ljósmynd/Kyana Sue

„Ég held áfram minni vinnu og vil að fólk fái sem mest út úr sínum Íslandsferðum. Við gerum mikið af sérnsniðnum ferðaplönum og fólk hringir oft í mig myndsímtöl og við ræðum ferðina. Oft er fólk með óraunhæfar hugmyndir hvað sé hægt að gera margt á stuttum tíma. Margir sjá mig á Instagram og segja að ég hafi verið þeim innblástur og jafnvel orðið til þess að þeir ákváðu að koma hingað,“ segir Kyana og er alsæl á Íslandi.

„Ég bjó mér til nýtt líf úr bókstaflega engu og set nú lífið mitt á samfélagsmiðla fyrir aðra að sjá. Ég er svo ánægð að ég lét drauma mína rætast.“

Ítarlegt viðtal er við Kyönu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert