Gerðu ráð fyrir því að enda öll saman í koju

Sigmundur Davíð er á Grænlandi.
Sigmundur Davíð er á Grænlandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, prísar sig sælan að þurfa ekki að deila koju í nótt með samstarfsfólki sínu í Vestnorræna ráðinu eftir vægast sagt ævintýralegt ferðalag til Grænlands.

Þegar blaðamaður náði tali af honum var hann kominn í einstaklingsherbergi á hóteli skammt frá Kulusuk, en hann er þar vegna Þemaráðstefnu sem átti að halda í grænlenska þorpinu Tasiilaq í næstu viku. 

Það er skemmst frá því að segja að ráðstefnunni hefur verið aflýst vegna veðurs og er óvíst hvenær næsta flug fer til Íslands. Það verður þó að öllum líkindum ekki fyrr en eftir nokkra daga.

„Við vorum heppin að sleppa hingað af flugvellinum áður en allt lokaðist,“ segir Sigmundur í samtali við mbl.is en hópurinn hafði upphaflega átt bókað á hótel í Tasiilaq en komst ekki sökum ófærðar.

Þrátt fyrir að gistingin hafi reddast lýsir þingmaðurinn þó yfir áhyggjum af þeim óskunda sem kunni að fara fram á Alþingi í hans fjarveru enda óljóst hvenær hópurinn kemst aftur heim.

Allt er þegar þrennt er

Sex Íslendingar á vegum Vestnorræna ráðsins áttu að taka þátt í Þemaráðstefnu dagana 4. til 6. mars. Þau Eyjólfur Ármannsson, þingmaður flokks fólksins, Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstrihreyfingar - græns framboðs, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar, Hildur Edwalds, starfsmaður skrifstofu Alþingis, og Sigmundur Davíð. Þá var ein kona á vegum færeyska hópsins einnig með í för, hún Halla.

Þegar Sigmundur Davíð skoðaði veðurspánna fyrir Grænland í gærkvöldi taldi hann útilokað að það yrði af ferðalagi íslenska hópsins til Grænlands í dag, enda stefndi í mikið hvassviðri og úrkomu. 

Þegar Sigmundur mætti á flugvöllinn virtist þó ekkert því til fyrirstöðu að íslenski hópurinn væri á leið út. Það átti þó eftir að breytast en ekki leið á löngu þar til fyrsta vandamál ferðarinnar dúkkaði upp þegar viðvörunarljós kviknaði í flugvélinni. Að sögn Sigmundar var vandinn auðleystur og dugði hið gamalkunna ráð að slökkva bara og kveikja aftur. 

Flugtak var ekki enn í augsýn heldur þurfti því næst að afísa flugvélina. Var flugvélin þá „sprautuð með gumsi.“

Hindranirnar voru þó enn ekki allar úr vegi en þegar ræsa átti flugvélina virkaði startarinn ekki, að sögn Sigmundar. Var þá ákveðið að senda eftir öðrum búnaði en ef það gengi ekki upp átti að blása ferðina af.

„Það leit ekki út fyrir að hann myndi virka heldur en svo hrökk allt í gang,“ lýsir Sigmundur. Íslenski hópurinn fór um borð og tók vélin á loft eftir um klukkustundar bið.

Ókyrrð í loftinu

Þegar vélin nálgaðist Grænland fengu farþegar þau skilaboð að spenna á sig beltin vegna ókyrrðar. Skömmu síðar tilkynnir flugstjórinn að ekki sé hægt að lenda sökum veðurs. Flugmaðurinn hringsólaði þó um í 20 mínútur í von um að aðstæður myndu breytast.

„En þá sé ég að hjólin koma niður og vélin lenti,“ segir Sigmundur og bætir við: „Þetta var vel að verki staðið þó að skyggni væri lítið.“

Hópurinn gat því andað léttar. 

„En þá opna ég símann og sé að ráðstefnunni er aflýst og um leið fréttist að það séu ekki líkur á flugi til Íslands á næstunni, eða næstu daga.“

Hópurinn gerði þó ráð fyrir að hægt yrði að taka sömu flugvél og þau komu með, aftur til Íslands. Kerfið bauð þó ekki upp á slík þægindi.

„En þá sagði bara tölvan nei, við gætum ekki farið aftur með sömu vél,“ segir Sigmundur og tekur fram að hann kunni ekki skýringar á því hvers vegna það væri.

Varð hópurinn því að halda sig við upprunalega skipulagið og halda til Tasiilaq þar sem þau áttu bókað hótel – allavega þangað til að í ljós kom að ófært var til Tasiilaq. Var þyrlan sem hópurinn átti að ferðast með ekki á leiðinni í loftið á næstunni.

Til Tasiilaq með hundasleða?

Þá voru góð ráð dýr. Að sögn Sigmundar gat afgreiðslukona í lítilli sjoppu, sem seldi m.a. pylsur og Haribo-hlaup, greint þeim frá því að um hádegið hefðu þrír komist til Tasiilaq á hundasleða. Ferðalagið hefði þó tekið þremenningana einn og hálfan klukkutíma. 

Að sögn Sigmundar þótti sá ferðamáti óraunhæfur miðað við það hvernig veðrið var að þróast.

Skömmu síðar komst hópurinn, sem betur fer, í samband við sannkallaðan þúsundþjalasmið sem rak hótel í nágrenni við Kulusuk. Bjargvætturinn kom á rútu og keyrði íslenska hópinn á hótelið. 

„Við höfðum gert ráð fyrir því að enda öll í koju saman en hér er ég kominn inn í mitt ágæta herbergi,“ segir Sigmundur.

Fer ekki í göngutúra

Þingmaðurinn lætur nú fara vel um sig á einstaklingsherberginu þó hann hafi að vísu ekki náð að horfa á Söngvakeppnina og vilji ekki fara út einn síns liðs en honum hefur verið ráðlagt að fara ekki í göngutúra nema með haglabyssu eða sprey til að fæla ísbirni frá.

Spurður um heimförina segir Sigmundur óljóst hvenær íslenski hópurinn geti haldið aftur til Íslands.

„Einhver á flugvellinum sagði að það væri verið að miða við mánudag,“ segir þingmaðurinn en tekur þó fram að heimamenn hefðu hlegið að þeirri dagsetningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert