Þarf að greiða fyrir aðgang að kaffihúsinu

Vinsælt hefur verið að setjast á kaffihús Perlunnar og njóta …
Vinsælt hefur verið að setjast á kaffihús Perlunnar og njóta útsýnisins. mbl.is/Árni Sæberg

Nú þurfa allir þeir sem ætla að fara í Perluna að kaupa aðgangsmiða að byggingunni. Þetta á líka við um þá sem ætla að fara á kaffihúsið, veitingastaðinn eða útsýnispallinn. 

Aftur á móti er sérstakt vildarvinakort Perlunnar í boði og veitir það frían aðgang, segir starfsmaður Perlunnar í samtali við mbl.is. 

Hefðbundinn aðgangsmiði fyrir fullorðna er 5.390 kr. Fyrir 6-17 ára kostar aðgangurinn 3.390.

Korthafar fá ókeypis aðgang og önnur fríðindi

Íslendingar geta sleppt við að borga sig inn ef þeir sækja um vildarvinakort. Kortið er ókeypis og veitir korthöfum aðgang að 4. og 5. hæð Perlunnar, þar sem veitingaþjónusta er í boði og útsýnispallurinn er staðsettur. 

Einnig veitir kortið ýmis fríðindi eins og afslátt á þjónustu og veitingum í Perlunni. 

Upplýsingar um vildarvinakortið er hægt að nálgast á íslenskri útgáfu heimasíðu Perlunnar.

Mikið streymi fólks í byggingunni

Vildarvinakortin eru eingöngu gefin út til einstaklinga sem hafa náð 18 ár aldri. Á heimasíðu Perlunnar kemur eftirfarandi fram: „Réttur korthafa til að njóta þeirra fríðinda sem vildarvinakort Perlunnar býður upp á er bundinn við korthafa einan og gildir rétturinn því ekki um vini eða fjölskyldumeðlimi sem eftir atvikum heimsækja.“

Starfsmaður Perlunnar segir að með kortinu geti fólk gengið beint inn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert