Þorgerður styður Katrínu í forsetaembættið

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar vill sjá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á Bessastöðum að afloknum forsetakosningum í sumar. Hún segist sjálf ekki á leið í framboð þótt fólk hafi hvatt hana til þess.

Þorgerður Katrín er gestur Spursmála og ræðir þar pólitíkina vítt og breitt.

Margt flott fólk í boði

- Þá er það milljón evru spurningin. Ert þú ekki á leið í forsetaframboð?

„Ég segi bara að ef Katrín Jakobsdóttir fer þá mun ég styðja hana. Og svo er fullt af flottu fólki sem hefur verið nefnt og ég ætla bara að taka mér tíma til að hugsa það hvern ég mun styðja.“

- Er það vegna þess að þú vilt losna við hana af þinginu?

„Nei ég vil losna við þessa ríkisstjórn.“

- Já. Er það að kjósa Katrínu besta leiðin til þess.

„Nei.“

Stjórnin springur án Katrínar

- Þú veist að ríkisstjórnin springur ef hún fer.

„Já en sama hvernig þetta verður þá held ég að við þurfum einhverja manneskju eins og Katrínu á Bessastaði. Ég var reyndar grautfúl yfir því að Guðni skyldi hætta núna.“

- En Þorgerði Katrínu?

„Ha, ha. Já mér finnst voða gaman þegar fólk hnippir í mig og segir allskonar fallega hluti en mitt hlutverk núna er fyrst og fremst að koma Viðreisn í ríkisstjórn því það þarf að fara að framkvæma og gera ákveðna hluti fyrir fólkið og fjölskyldurnar í landinu.“

- Ég er viss um að það eru ýmsir andstæðingar þínir í þinginu sem myndu styðja þig í forsetaframboði af sömu ástæðum og þú mögulega Katrínu?

„Já það er alltaf verið að ýta mér út úr þessu. Ég held að reynsla í pólitík sé dálítið vanmetið fyrirbæri og fyrir vakið, þegar maður er bæði með þessa reynslu og búinn að sjá allskonar í lífinu, bæði gott og vont þá er maður óhræddari og ég er frjálsari í því að taka ákveðnar ákvarðanir og bara mistekst mér. En það versta sem við gerum núna er að vera með svona ríkisstjórn sem gerir ekki neitt.“

Viðtalið við Þorgerði Katrínu má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert