Andlát: Karl Gunnlaugsson

Karl Gunnlaugsson.
Karl Gunnlaugsson. mbl.is/Hari

Karl Gunnlaugsson, athafna- og akstursíþróttamaður, lést á heimili sínu í Mosfellsbæ aðfaranótt laugardagsins 2. mars, 57 ára að aldri. Karl fæddist 17. ágúst árið 1966 í Reykjavík og ólst upp í Smáíbúðahverfinu. Foreldrar hans voru Gunnlaugur Karlsson og Halldóra Pálsdóttir. Karl stundaði nám við Réttarholtsskóla. Hann var einn fyrsti íslenski keppandinn í akstursíþróttum erlendis og tók þátt í fjölda keppna á götumótorhjólum erlendis á áttunda og níunda áratugnum sem og enduro- og spyrnukeppnum hér heima í kjölfarið.

Karl vann fjölda Íslandsmeistaratitla á ferli sínum og var kjörinn akstursíþróttamaður ársins árið 1991. Karl vann ýmis störf á sínum ferli en stofnaði fljótlega eigið fyrirtæki, Karls Neon. Eftir farsælan rekstur á því sviði stofnaði hann fyrirtæki í kringum áhugamálið og hóf árið 1994 innflutning á KTM-mótorhjólum sem hann sinnti til síðasta dags. Karl var farsæll á því sviði og fjölmargir hafa stigið sín fyrstu skref í hjólamennskunni með heimsókn til Kalla í KTM.

Karl var einnig atkvæðamikill í félagsstarfi í kringum íþróttina. Hann kom að stofnun Sniglanna, bifhjólasamtaka lýðveldisins árið 1984 og bar Sniglanúmerið #5. Hann sat í stjórn LÍA, Landssambands Íslenskra aksturíþróttamanna, í allmörg ár og í stjórn Vélhjólaíþróttaklúbbsins um árabil. Karl var ennfremur einn hvatamanna að stofnun MSÍ, Mótorhjóla- og snjósleðasambands Íslands, sem er nú aðili að Íþróttasambandi Íslands. Var Karl formaður sambandsins og sat í stjórn um árabil. Karl var mikill flugáhugamaður og vann meðal annars að smíði eigin flugvélar og byggingu flugskýlis við sumarbústað sinn við Heklurætur. Eftirlifandi eiginkona Karls er Helga Thorlacius Þorleifsdóttir. Börn þeirra eru Gunnlaugur og Stefanía Rós. Afadrengir Karls eru þrír, þeir Karl og Emil Gunnlaugssynir og Hinrik Karl Ingólfsson. Útför Karls verður auglýst síðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert