Rokksafni Íslands verður lokað

Rokksafni Íslands verður að óbreyttu lokað.
Rokksafni Íslands verður að óbreyttu lokað. Ljósmynd/hljomaholl.is

Rokksafni Íslands verður að óbreyttu lokað og mun bókasafn Reykjanesbæjar flytja í húsakynni Rokksafnsins í Hljómahöll. 

Þetta segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í samtali við mbl.is.

Kjartan segir að aðsókn í Rokksafnið hafi verið minni en upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Hann segir það til skoðunar að halda úti einhverjum minjum frá Rokksafninu í bókasafninu. Spurður beint út hvort Rokksafninu verði lokað segir hann:

„Já, safninu sem slíku verður lokað en það verður reynt að hafa einhverja muni og minjar frá Rokksafninu inni á milli á bókasafninu,“ svarar Kjartan.

Ekki einhugur um málið í bæjarráði

Meirihluti bæjarráðs Reykjanesbæjar samþykkti í síðustu viku að færa bókasafn bæjarins í Hljómahöll. Bókasafn Reykjanesbæjar er Tjarnargötu 12 þar sem Ráðhús Reykjanesbæjar er einnig til húsa.

Á morgun tekur bæjarstjórn málið til samþykktar og gerir Kjartan ekki ráð fyrir öðru en að málið verði samþykkt með meirihluta atkvæða.

Fram kemur í fundargerð bæjarráðs að fjórir bæjarfulltrúar meirihlutans hafi samþykkt að færa bókasafnið og voru það bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar og Beinnar leiðar. Margrét Sanders, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, kaus gegn því að bókasafnið yrði fært.

Segir alla þurfa að gefa eitthvað eftir

Kjartan segir að reynt verði að halda tónlistarmenningu í bókasafninu, enda er tónlistarskólinn í Reykjanesbæ í Hljómahöll og er þar líka mikið viðburðarhald í sölunum Stapa og Bergi, svo dæmi séu nefnd.

Flutningur bókasafnsins í Hljómahöll er ekki til skamms tíma, segir Kjartan. Rýmið sem bókasafnið mun fá í Hljómahöll er ekki eins mikið og bókasafnið sjálft vildi fá og segir Kjartan til skoðunar að byggja við Hljómahöll í framtíðinni til að stækka bygginguna.

„Bókasafnið fær færri fermetra en það telur sig þurfa. Tónlistarskólinn þarf að samnýta eitthvað af stofum með bókasafninu þannig að tónlistarskólinn mun þurfa að minnka það pláss sem hann hefur fyrir sig, vonandi án þess að það trufli starfsemina eitthvað,“ segir Kjartan. Um sé að ræða kennarastofur hjá tónlistarskólanum og slíkt sem gæti verið samnýtt.

„Síðan er náttúrulega Hljómahöll að missa eitthvað af plássi líka, þetta sem er undir Rokksafnið. Allir verða að gefa eitthvað smá eftir til að þetta gangi upp.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert