Grindvísk börn með áhyggjur af framtíðinni

Tæplega 300 grindvísk börn komu saman í Laugardalshöll í dag til að ræða stöðu sína og framtíð. Margt liggur þeim á hjarta en áberandi voru áhyggjur af safnskólum, framtíð íþróttastarfs og tækifærum til að halda sambandi við bekkjarfélaga.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók þátt í fundinum. Hún svaraði spurningum krakkanna og hlustaði á áhyggjur þeirra. Umboðsmaður barna stóð fyrir fundinum og var hann skipulagður í samvinnu við bæjaryfirvöld Grindavíkur. 

Markmið fundarins var að heyra hvað börnunum lægi á hjarta og hvernig stjórnvöld gætu með sem bestum hætti staðið vörð um réttindi þeirra við núverandi aðstæður.

Áhyggjur af íþróttastarfi, safnskóla og vinum

Krakkarnir unnu saman í minni hópum þar sem þau ræddu hvað væri búið að vera erfiðast síðustu mánuði og hvað þau hafa verið ánægð með. Þau fóru síðan yfir þau mál sem búið var að ræða og forgangsröðuðu því sem þeim fannst mikilvægast að vekja athygli á við stjórnvöld.

Í síðustu lotunni sömdu krakkarnir svo spurningar til Katrínar Jakobsdóttur sem sat fyrir svörum í lok fundar. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi við krakkana um áhyggjur þeirra og …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi við krakkana um áhyggjur þeirra og svaraði spurningum. mbl.is/Árni Sæberg

Börnum úr Grindavík hefur verið boðið að ganga í safnaskóla í Reykjavík en þar hefur þeim verið skipt í hópa eft­ir aldri og kenn­ar­ar úr Grinda­vík verið með börn­un­um. 

Meðal þess sem bar hæst hjá krökkunum voru áhyggjur af íþróttastarfi, aðstaðan í safnaskólum og möguleikar þess að halda sambandi við vini sína, í ljósi þess að dreifst hefur úr hópnum um allt land.

Einnig vöktu krakkarnir athygli á almennum áhyggjum sínum af stöðunni í heimabæ sínum og báðu stjórnvöld um að passa upp á bæinn sinn. 

Krakkarnir voru ekki sáttir við safnaskólana og bentu meðal annars á slæma umgengni, óhreinar klósettaðstöður og lélegan mat. Þá sögðu krakkarnir líka að erfitt væri að leika sér í kringum safnskólana og það þurfi betra leiksvæði í kring. 

Sakna frelsisins í Grindavík

mbl.is ræddi við krakka á staðnum sem voru öll sammála um að mikil óvissa ríki um framtíðina. Allt veltur á því hvar þau enda á að búa. 

Tæplega 300 börn tóku þátt í fundinum.
Tæplega 300 börn tóku þátt í fundinum. mbl.is/Árni Sæberg

Eldri krakkarnir vörpuðu einnig fram vangaveltum um vinnuskólann í sumar. Þá vildu þau vita hvar þau standa þegar kemur að atvinnumöguleikum í sumar, þar sem líklegast verður ekki boðið upp á vinnuskóla í Grindavík. Þau lýstu yfir miklum vilja til að halda hópinn í sumar.

Síðustu mánuðirnir eru búnir að vera erfiðir segja krakkarnir. Aðspurð um hvað hefur verið erfiðast við allar þessar breytingar segja þau erfitt að geta ekki hitt alla vini sína eins og venjulega og þau sakni frelsisins við að vera í Grindavík.

Krakkarnir unnu saman í minni hópum og kortlögðu áhyggjur sínar.
Krakkarnir unnu saman í minni hópum og kortlögðu áhyggjur sínar. mbl.is/Árni Sæberg

Þau halda þó í jákvæðnina og segja spennandi að eignast nýja vini og prófa að skipta um skóla. Blanda af spennu og stressi einkenni tilfinningarnar fyrir næsta haust. 

Embætti umboðsmanns barna mun fylgja skilaboðum barnanna eftir við stjórnvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert