„Það er auðvitað pólitík og ég skil þá vel“

Heiða Björg Hilmisdóttir á fundi SÍS í dag.
Heiða Björg Hilmisdóttir á fundi SÍS í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir gagnrýni stórs hóps sveitarstjóra úr röðum Sjálfstæðisflokksins byggja á því að sveitarstjórnarmenn þess flokks séu að stórum hluta hugmyndafræðilega ósammála því að grunnskólamáltíðir eigi að vera ókeypis. Segir hún sjálfstæðismenn ekki upplifa þetta sem rétta aðgerð eða rétta forgangsröðun.

„Það er auðvitað pólitík og ég skil þá vel,“ segir Heiða í samtali við mbl.is á landsþingi sambandsins sem haldið er í Hörpu í dag.

Hópur sveitarstjóra gagnrýndi í grein í Morgunblaðinu í morgun að Heiða hefði við gerð kjarasamninga samþykkt ákvæði um gjaldfrjálsar máltíðir í grunnskólum og það komi „í fang aðþrengdra sveit­ar­fé­laga“. Jafnframt er því haldið fram að þetta mál hafi komið á dagskrá kjaraviðræðna þvert gegn vilja stjórnar SÍS.

Aldrei komist að einróma niðurstöðu

Heiða segir að í jafn stóru sambandi og SÍS verði aldrei komist að niðurstöðu sem allir felli sig við, en að stjórnin hafi komist að þessari niðurstöðu. „Sé ekki annað en að þetta sé hugmyndafræðilegur ágreiningur. Það er alltaf erfitt í stóru samfélagi sveitarfélaga að komast að einróma niðurstöðu, en við gátum talað okkur niður á niðurstöðu í stjórninni og þar er okkar ábyrgð og umboð.“

Hún segir að í kjarasamningunum sem skrifað var undir hafi fjórir liðir snúið að sveitarfélögum. Fyrst hafi verið um að ræða að brúa ætti betur ummönnunarbil milli fæðingarorlofs og leikskóla. Svo ættu sveitarfélög að stórauka húsnæðisuppbyggingu með því að koma inn með stofnframlög og lóðir.

Í þriðja lagi þyrfti að endurskoða menntakerfið heildstætt og endurskoða gjaldskrár. Í því samhengi þyrfti að skoða ef gjaldskrár sem tengjast börnum, barnafjölskyldum og fólki í viðkvæmri stöðu hafi hækkað um meira en 3,5%. Sé það niðurstaðan er því beint til sveitarfélaga að draga úr hækkunum miðað við það.

Að lokum sé liðurinn sem snýr að því að sveitarfélög útfæri leið þannig að börnum í grunnskólum bjóðist gjaldfrjálsar skólamáltíðir frá og með næsta hausti yfir næstu fjögur ár, en að verkefnið verði tekið út að tveimur árum liðnum.

Gefur lítið fyrir samráðsleysi

Heiða segir að aðeins hafi komið fram gagnrýni frá sjálfstæðismönnum við fjórða liðinn. Segir hún því erfitt að meta það öðruvísi en svo að gagnrýni sveitarstjóranna snúist aðeins um gjaldfrjálsa matinn, en ekki hina liðina. Bendir hún á að samhliða því sem þessi hópur hafi sett fram gagnrýni hafi jafnframt margir hrósað SÍS fyrir þessa leið. Heiða tekur þó fram að það sé í eðli sínu þannig að sveitarstjórnarmenn vinstra megin við miðju séu sáttari með þennan lið en þeir sem hægra megin séu á litrófinu.

Hún gefur jafnframt lítið fyrir gagnrýni um að ekki hafi verið haft samráð í ferlinu. Segir hún að unnið hafi verið í takti og út frá sama vinnulagi og áður og jafnvel að meira samráð hafi verið haft við þessa kjarasamningagerð.

Heiða gagnrýnir þó að ríkisvaldið hafi ekki sýnt SÍS heildarpakka sinn fyrr og það hafi gefið henni takmarkað svigrúm til að ræða við framkvæmdastjóra sveitarfélaganna fyrr eins og hún hafi viljað gera um heildarsýn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert