Andlát: Einar Ólafsson

Einar fæddist 13. janúar 1928 í Reykjavík. Foreldrar hans voru …
Einar fæddist 13. janúar 1928 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Ólafur Hermann Einarsson læknir og Sigurlaug Einarsdóttir, húsfreyja og hannyrðakennari. Einar ólst upp í Laugarási þar sem faðir hans var héraðslæknir.

Einar Ólafsson, íþróttakennari og körfuboltaþjálfari, lést 12. mars á hjúkrunarheimilinu Eir, 96 ára að aldri.

Einar fæddist 13. janúar 1928 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Ólafur Hermann Einarsson læknir og Sigurlaug Einarsdóttir, húsfreyja og hannyrðakennari. Einar ólst upp í Laugarási þar sem faðir hans var héraðslæknir.

Einar stundaði nám í barnaskólanum í Reykholti og fór síðar í íþróttakennaranám á Laugarvatni. Eftir útskrift þar kenndi Einar íþróttir og sund víða um land þar til hann var ráðinn í fasta stöðu íþróttakennara í Langholtsskóla í Reykjavík árið 1958 og kenndi þar til starfsloka.

Einar kynntist körfubolta á Laugarvatni og var sú íþrótt honum hugleikin alla tíð. Er hann fluttist á höfuðborgarsvæðið fór hann að stunda körfubolta með ÍR og var fljótt ráðinn þar þjálfari. Stundaði Einar þjálfun hjá ÍR í nærri hálfa öld og fékk viðurnefnið „faðir körfuboltans“ hjá félaginu, ekki síst þar sem leikmenn streymdu í ÍR sem höfðu verið í íþróttum hjá Einari í Langholtsskóla.

Einar þjálfaði hjá ÍR bæði meistaraflokka og yngri flokka. Íslandsmeistaratitlar ÍR í karlaflokki eru 15 alls og var Einar þjálfari liðsins í 11 skipti þegar þeir urðu Íslandsmeistarar, á gullaldarárum félagsins. Einar þjálfaði sömuleiðis landslið Íslands í körfubolta. Einar var útnefndur heiðursfélagi ÍR, fékk heiðurskross KKÍ og einnig gullmerki KKÍ fyrir störf sín í þágu körfuboltans á Íslandi.
Mætti Einar á flesta heimaleiki ÍR í körfubolta langt fram á níræðisaldurinn.

Auk körfuboltans var garðyrkja mikið áhugamál Einars. Stundaði hann hana í Laugarási, þar sem foreldrar hans og systkini áttu sumarbústaði. Ræktaði hann þar gulrætur, agúrkur og annað grænmæti í áratugi, allt til 85 ára aldurs.

Eiginkona Einars var Guðfinna Kristín Kristjánsdóttir kennari, f. 1931, d. 2021. Synir þeirra eru Ólafur, f. 1963, Kristján Börkur, f. 1965, og Sigurður, f. 1968. Barnabörnin eru tíu og langafabörnin tvö.

Útför Einars fer fram frá Seljakirkju miðvikudaginn 20. mars kl. 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert