Fylgjast náið með háspennulínum

Fylgst er náið með háspennulínum sem liggja frá orkuverinu í …
Fylgst er náið með háspennulínum sem liggja frá orkuverinu í Svartsengi en hraun rennur nú í átt að þeim. mbl.is/Eyþór

Fylgst er náið með háspennulínum sem liggja frá orkuverinu í Svartsengi en hraun rennur nú í átt að þeim.

Þetta segir Krist­inn Harðar­son, fram­kvæmda­stjóri fram­leiðslu hjá HS Orku, í samtali við mbl.is.

Ef Svartsengislínan slær út þá þarf að taka niður tvær raforkuframleiðsluvélar hjá orkuverinu í Svartsengi. Það yrði ekki vandamál fyrir íbúa í byggð en gæti þýtt skerðingar fyrir stórnotendur raforku, að hans sögn. 

Eins og mbl.is hef­ur greint frá þá eru inn­an við tveir kíló­metr­ar í að ein hrauntung­an sem myndaðist úr gossprung­unni nái að heita­vatns­lögn­inni og háspennulínunum. Var það Víðir Reyn­is­son, yf­ir­lög­regluþjónn al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra, sem sagði það í sam­tali við mbl.is.

Aðrar línur klárar til tenginga

„En við erum búin að fjárfesta í neyðarvélum þannig við getum haldið stöðvarafmagni á orkuverinu og þannig framleitt heitt vatn og dælt í. Þannig það mun ekki hafa nein áhrif á vatnsafhendingar,“ segir hann.

Hann segir að það séu aðrar háspennulínur klárar til tenginga á staðnum ef að núverandi Svartsengislína bregst.

Telja að heitavatnslögnin haldi

Búið er að grafa heita­vatns­lögn­ina frá Svartsengi að Njarðvík smá­veg­is niður í jörð og moka jarðvegs­fyll­ingu yfir hana á löng­um kafla. Heitavatnslögnin er á sama stað og háspennulínurnar. 

„Plön­in okk­ar gera ráð fyr­ir að hraun geti runnið þar yfir og lögn­in verði heil und­ir. Það var sett tölu­vert af jarðvegi yfir og þjappað vel – mynduð eins kon­ar hraun­brú,“ seg­ir Krist­inn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert