Fyrirvarinn nánast enginn

Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofu Íslands, segir að það hafi …
Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofu Íslands, segir að það hafi dregið töluvert úr gosvirkninni á Reykjanesskaganum. Samsett mynd/mbl.is/Árni Sæberg/Eggert

Kristín Jónsdóttir, deildarstjóri á Veðurstofu Íslands, segir að það hafi dregið töluvert úr gosvirkninni á Reykjanesskaganum en það sé samt sæmileg virkni enn i gangi og að hraun renni bæði til suðurs og vesturs.

„Ég held að þetta gos verði eitthvað svipað og við höfum séð áður. Það getur vel verið að þetta klárist í dag, á morgun eða á næstu dögum. Mér finnst ólíklegt að gosið muni standa yfir í viku eða lengur en það,“ segir Kristín við mbl.is.

Kort/mbl.is

Kom ekki neinum á óvart

Hún segir að gosið hafi ekki komið neinum á óvart. „Við erum að sjá þetta krítíska rúmmál sem er eitthvað í kringum 10 milljónir rúmmetra sem þurfi að safnast áður en það verður kvikuhlaup. Í síðasta spretti sem kom 2. mars var ekki nægilegt kvikumagn sem fór í það kvikuhlaup og af hverju það gerðist vitum við ekki.“

Kristín segir að bara sú litla breyting að gossprungan nái suður fyrir vatnaskilin, hafi þær miklu afleiðingar að hraunið renni til suðurs líka.

„Það eru litlar breytingar á þessari gosopnun sem getur haft mjög dramatískar afleiðingar. Þá þarf að bregðast við á öðrum stöðum,“ segir Kristín.

Kristín segir að allir hafi verið við því búnir að hraunið gæti farið að renna til suðurs og hún segir að varnargarðarnir hafi svo sannarlega sannað gildi sitt.

Sjöunda eldgosið á Reykjanesskaganum á tæpum þremur árum braust út …
Sjöunda eldgosið á Reykjanesskaganum á tæpum þremur árum braust út í gærkvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Búið að þenja þetta svæði mikið

Það má segja að fyrirvarinn hafi verið nánast enginn þegar gosið braust úr á Sundhnúkagígaröðinni á milli Hagafells og Stóra-Skógfells klukkan 20.23 í gærkvöld.

„Það komu fáir mjög litlir skjálftar og þeir náðu aldrei þeirri virkni sem við höfum séð áður. Það mældist enginn skjálfti yfir tvo að stærð í aðdragandanum sem í raun sýnir hvað það er búið að þenja þetta svæði mikið að kvikan þarf ekki að hafa neitt svakalega mikið fyrir því að komast þarna í gegn,“ segir Kristín.

Skjálftarnir sem Kristín talar um hófust við Stóra-Skógfell rétt fyrir klukkan hálf átta í gærkvöld og 55 mínútum síðar braust gosið út.

Ekki sést neinar breytingar á kvikuinnflæði á árinu

„Við erum með mismunandi viðvörunarþrep og það þrep sem við höfum verið að miða við hingað til var of hátt fyrir þennan atburð. Það er augljóst að við þurfa að fara að lækka okkar þröskulda en þá erum við komin í svo mikla smáskjálfta að við hættum að sjá ef það er mjög vont veður.“

Kristín segir að ekki hafi sést neinar breytingar á kvikuinnflæði inn í Svartsengiskerfið á þessu ári og á meðan ekki sjáist breytingar á innflæðinu þá sé staðan sú að yfirvofandi kvikuhlaupsatburðir geti haldið áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka