Hraunið sent til Þýskalands

Sýni úr hrauninu verða send til Þýskalands til greiningar. Gæti …
Sýni úr hrauninu verða send til Þýskalands til greiningar. Gæti þetta nýst til að betrumbæta hraunflæðilíkön í framtíðinni. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson

Vísindamenn á vegum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands tóku í dag sýni úr jaðri hraunsins sem verður svo send til Þýskalands til greiningar.

Ármann Höskuldsson, eld­fjalla­fræðing­ur og pró­fess­or við Há­skóla Íslands, segir þetta gert til að ná í upplýsingar um vökvann og uppruna kvikunnar.

Hægt er að nýta þær upplýsingar til að bæta hraunflæðilíkön.

„Við erum að eltast við vökvafræðilega eiginleika. Það er, að sjá hvernig seigjanlegir eiginleikar kvikunnar breytast frá upptökum og út í jaðra. Því er svolítið stjórnað af gasinu sem er í kvikunni. Gasið er að rjúka úr henni, mest af því fer úr upp í gígum og svo eftir að hún byrjar að renna sem hraun. Þá heldur hún áfram að kólna og það hefur áhrif á seigju og aðra vökvafræðilega eiginleika,“ segir Ármann.

Hjálpar við að betrumbæta hraunflæðilíkön

Tekin voru fáein sýni í dag og verða þau send til Þýskalands þar sem þau verð greind.

Vænta má þess að niðurstöður berist svo eftir nokkrar vikur. Koma niðurstöðurnar svo vel til gagns til að betrumbæta hraunflæðilíkön, sem Íslendingar eru farnir að kannast ágætlega við.

Svipuð samsetning og síðustu gos

Hann segir að kvikan í þessu gosi sé úr svipaðri samsetningu og öll síðustu gos á Sundhnúkagígaröðinni, þar sem gosin eigi það öll sameiginlegt að kvikan safnist í saman kvikuhólf á 4-5 kílómetra dýpi.

„Það sem við gerum líka er að kíkja á efnasamsetningu niður í smæstu snefilefni til að sjá hvaðan hún er að koma,“ segir Ármann og bætir við:

„Með því að skoða kristallanna þá getum við séð hvaðan hún er koma í byrjun – hvar hún byrjar að mynda sína fyrstu kristalla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert