23 sekúndur að staðsetja gosið

Forritararnir Bæring Gunnar Steinþórsson og Jón Trausti Arason kynna til …
Forritararnir Bæring Gunnar Steinþórsson og Jón Trausti Arason kynna til sögunnar nýtt forrit til að reikna út staðsetningu fyrirbæra gegnum vefmyndavélar á örskotsstundu. Kort/Aðsent

„Þessi hugmynd kviknaði í desember, þegar fyrsta eldgosið í þessari hrinu, sem nú stendur, hófst,“ segir Bæring Gunnar Steinþórsson, forritari hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Aranja, sem ásamt samstarfsmanni sínum, Jóni Trausta Arasyni, einnig forritara, segir Morgunblaðinu frá tækni sem þeir hafa þróað til að ákvarða nákvæmlega staðsetningu fyrirbæra – svo sem eldgosa.

„Maður sá fjölda mynda af eldgosinu, en enginn gat sagt manni hvar það var,“ heldur Bæring áfram og bendir í framhaldinu á að það mikilvægasta, þegar eldgos hefst, sé að ákvarða staðsetningu þess af nokkurri nákvæmni.

Bæring og Jón Trausti kveða nýju tæknina mjög spennandi og …
Bæring og Jón Trausti kveða nýju tæknina mjög spennandi og leita nú samstarfsaðila til að halda þróunarvinnunni áfram. Samsett mynd/Aðsend

„Nú ganga allir með síma í vasanum og þannig fékk ég þessa hugmynd. Síminn þinn veit alltaf hvar þú ert, hann er með innbyggðan áttavita og myndavél,“ útskýrir forritarinn. Þannig geti notandinn beint síma sínum að atburði sem hann sér og „skotið línu“ að þeim atburði. „Og ef þú færð fleiri aðila með þér í málið getið þið saman staðsett atburðinn af mikilli nákvæmni,“ segir Bæring.

Alltaf einhver skekkja

Hann kynnti hugmynd sína fyrir samstarfsfólkinu hjá Aranja í janúar í svokallaðri „hakkviku“, en í henni tekur starfsfólkið sér frí frá hefðbundnum verkefnum, starfsmenn leggja fram hugmyndir og svo er gengið til atkvæða um hverjar þeirra komist áfram í útfærslu. Staðsetningarhugmynd Bærings bar þar sigurorð úr býtum og úr varð smáforrit fyrir síma og tölvur.

Niðurstaða þessarar frumgerðar forritsins leiddi hins vegar í ljós að áttavitar í farsímum eru ekki óskeikulir, langt í frá. „Þar er alltaf einhver skekkja, segjum að hún sé tíu gráður. Og þegar þú ert 50 kílómetra í burtu getur það þýtt töluvert mikla skekkju,“ segir Bæring en ekki þurfi meira en segulsvið frá öðrum raftækjum og hulstrin utan um farsímana til að trufla.

Skýringarmynd Bærings og Jóns Trausta.
Skýringarmynd Bærings og Jóns Trausta. Kort/Aðsent

Þar með kviknaði ný hugmynd sem Jón Trausti útskýrir, enda er hún runnin undan rifjum hans. „Við fórum að ræða hvernig við gætum gert þetta nákvæmara og ég spurði mig þá hvernig færi ef við notuðum allar þessar vefmyndavélar, þær eru svo margar á Reykjanesinu sem horfa yfir þetta svæði,“ segir Jón Trausti.

Kveðast forritararnir tveir nú spenntir fyrir því að fá samstarfsaðila að borðinu við frekari þróun og útfærslu staðsetningarforritsins og benda á notagildi er þeir telja ótvírætt.

„Það tók okkur 23 sekúndur að staðsetja gosið mjög stuttu eftir að það hófst, þetta gæti einhver vöktunaraðili hjá almannavörnum gert um leið og gos byrjar,“ segir Bæring.

Hér að neðan má horfa á myndskeið þeirra forritaranna til skýringar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka