Aðhald ekki það sama og niðurskurður

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að ekki sé hægt að …
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að ekki sé hægt að auka útgjöld þó niðurskurður sé ekki í kortunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Niðurskurður er ekki í kortunum hjá stjórnvöldum en reynt verður að koma í veg fyrir aukin ríkisútgjöld.

Þetta sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra í samtali við mbl.is að loknum ríkisstjórnarfundi fyrr í dag.

Pen­inga­stefnu­nefnd Seðlabanka Íslands ákvað í gær að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%. Ein af ástæðunum sem nefndin gaf upp var sú að aðgerðir í rík­is­fjár­mál­um gætu aukið eft­ir­spurn og verðbólguþrýst­ing.

Ekki hægt að auka ríkisútgjöld

Sigurður segir að sýna þurfi aðhald í ríkisrekstri til að styðja við peningastefnu Seðlabankans. Þannig minnki verðbólgan og skilyrði skapist fyrir lækkun vaxta.

„Það er auðvitað langstærsti ávinningurinn fyrir heimilin, fyrirtækin, sveitarfélögin og ríkið. Ef við náum niður vaxtakostnaði allra þá borgum við margfalt þá fjármuni sem við erum að setja í tengslum við kjarasamninga.“

Hvernig gerir ríkið það?

„Það gerist ekki nema að það takist að ná niður verðbólgu og vöxtum og það er þá hluti af því að vera með aðhald í ríkisfjármálunum á meðan þar er þensla í samfélaginu,“ segir Sigurður.

Sem sagt að auka ekki útgjöld?

„Já, það er ekki hægt.“

Enginn niðurskurður í innviðaráðuneytinu

Spurður hvort að það verði einhver niðurskurður í málaflokkum sem heyra undir ráðuneyti hans segir hann svo ekki vera.

„Í húsnæðismálunum erum við að tryggja áframhaldandi uppbyggingu á þessu nýja húsnæðiskerfi út fjármálaáætlunina og í tengslum við kjarasamninga – vorum með það inni að stóru leyti, það er aðeins verið að bæta í þar á seinni árum áætlunarinnar,“ segir Sigurður.

Ekki hægt að fjármagna samgöngumál í samræmi við þörf

Sigurður sagði á Alþingi í gær að niður­skurður væri ekki fyr­ir­séður í sam­göngu­áætlun. Hann segir að samgöngumál kalli á miklu meiri fjármuni til frekari fjárfestinga. Í þeim málaflokki verði sýnt aðhald með að verja ekki jafn miklum fjármunum og mögulega er þörf á.

„Þá er auðvitað staðan sú að þegar þú ert að sýna fram á aðhaldssöm ríkisfjármál – sem er ekki það sama og niðurskurður – þá ertu ekki að fá aukningu í samræmi við það sem maður getur sýnt fram á að vegakerfið þurfi,“ segir Sigurður.

Hann segir að verið sé að reyna auka svigrúm til að bæta viðhald á vegum landsins sem og að efla vetrarþjónustu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert