Katrín minnist Páls

Páll og Katrín í góðum félagsskap á 75 ára afmæli …
Páll og Katrín í góðum félagsskap á 75 ára afmæli lýðveldisins 2019. Ljósmynd/Aðsend

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir veðurfræðinginn Pál Bergþórsson skilja eftir sig djúp spor í íslensku samfélagi. 

Páll, sem lést sunnudaginn 10. mars á 101. aldursári, verður borinn til grafar í dag og vottar ráðherrann fjölskyldu hans sína dýpstu samúð.

Í minningargrein Katrínar um Pál sem birtist í Morgunblaðinu í dag fer ráðherrann fögrum orðum um fyrrverandi veðurstofusjórann. Hún lýsir Páli sem sannkölluðum heiðursmanni í samskiptum og segir hann hafa veitt sér innblástur í umræðum um eina stærstu áskorun samtímans, loftslagsvána.

Menningarhetjur bernsku margra okkar voru veðurfræðingarnir í sjónvarpsfréttum: Knútur Knudsen, Markús Á. Einarsson, Borgþór Jónsson og Páll Bergþórsson með slaufuna sína sem nú er látinn, rúmlega aldargamall,“ ritar Katrín.

Fallhlífarstökk 

Hún segir Pál ekki aðeins hafa lifað lengi heldur lifað vel. Rifjar hún meðal annars upp þegar hann stökk í fallhlíf úr flugvél 95 ára að aldri og hve duglegur hann var að nýta sérfræðiþekkingu sína úr veðurfræði til að aðstoða við að ráða gátuna um Vínlandsferðir Íslendinga.

Þó að Páll væri kominn á eftirlaun var hann reglulegur viðmælandi í fjölmiðlum um hvað eina sem tengdist veðurfari og veðurfarssögu Íslendinga en einnig náttúrufræði almennt. Hann fylgdist með öllum eldgosum sem voru farin að nálgast 50 þegar hann hafði lifað heila öld. Einnig hafði hann mikinn áhuga á hlýnun jarðar, hækkandi sjávarborði og seinustu og næstu ísöld. Um alla þessa hluti ræddi hann af sömu ástríðu og skarpskyggni aldargamall og þegar hann var starfandi á Veðurstofunni,“ ritar Katrín.

Sannur sósíalisti

Hún segir Pál hafa verið sannan sósíalista og virkan félaga í Sósíalistaflokknum, Alþýðubandalaginu og Vinstrihreyfingunni - grænu framboði. 

Oft og tíðum sá ég hann og félaga hans í miðbæ Reykjavíkur að ræða þjóðfélagsmál yfir kaffibolla. Ég fékk þann heiður að leiða framboðslista Vinstri-grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir þingkosningarnar 2009. Þá skipaði Páll annað af tveimur heiðurssætum listans en hitt skipaði Margrét Guðnadóttir veirufræðingur. Þau tvö voru óþreytandi í kosningabaráttunni og miðluðu okkur hinum af visku og reynslu en líka hógværð og einlægni.

Páll Bergþórsson skilur eftir sig djúp spor í íslensku samfélagi og hjá okkur öllum sem nutu þeirra forréttinda að kynnast honum. Ég votta fjölskyldu Páls mína dýpstu samúð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert