Vill sem minnstar launahækkanir og mest aðhald

Seðlabankinn vill sjá sem mest aðhald á ríkisfjármálum þótt bankastjóri vilji ekki gefa bendingar um hvernig það skuli gert. Þá vill bankinn sem minnstar launahækkanir til að varðveita stöðugleika.

Þetta kemur fram í viðtali við Ásgeir Jónsson í Spursmálum þar sem staðan í hagkerfinu er rædd, stýrivextir Seðlabankans og hvers megi vænta af peningastefnunefnd hans þegar líður á árið.

Orðaskipti seðlabankastjóra og þáttarstjórnanda má heyra í spilaranum hér fyrir ofan en þau eru einnig rakin í rituðu máli hér fyrir neðan:

Ásgeir Jónsson mætir í ítarlegt viðtal á vettvangi Spursmála, þar …
Ásgeir Jónsson mætir í ítarlegt viðtal á vettvangi Spursmála, þar sem svara er leitað og eftir þeim gengið. mbl.is/María Matthíasdóttir

Þú nefnir verkalýðshreyfinguna, það er önnur hlið á peningnum, þið eruð í myntsláttunni, þú þekkir þetta vel, það er ekki sama myndin, hinu megin á peningnum er ríkisvaldið og ríkisfjármálin sem ykkur er tíðrætt um. Nú horfum við upp á það í viku hverri að ráðherrarnir sem virðast vera að búa sig undir kosningar koma með útgjaldaloforð, það á að tvöfalda listamannalaunin, það á að dæla hér peningum í þjóðaróperu, það á að reisa þjóðarhöll, það á að reisa hér brú yfir Fossvog sem enginn mun nota fyrir 10 eða 14 milljarða. Þið hljótið að svitna á efrivörinni þegar þið sjáið öll þessi útgjaldafyrirheit. Því það hlýtur að kynda undir, ekki aðeins skuldsetningu ríkissjóðs sme er enn rekinn með bullandi tapi og þar með peningaprentun heldur hlýtur það að ýta undir verðbólguvæntingarnar um leið? Er ekki óábyrgt af stjórnvöldum að tala með þessum hætti við þessar aðstæður?

„Ég myndi kannski ekki segja það hins vegar skipta ríkisfjármálin miklu máli og að einhverju leyti þegar covid-áfallið kom þá var ríkisfjármálastefnan að einhverju leyti tekin úr sambandi.“

Af hverju myndir þú ekki segja að þetta sé óábyrgt, ef þetta kyndir undir verðbólgunni?

„Eins og ég segi, þá held ég að fjármálaráðherra hafi ekki talað með þessum hætti, ég held að hún átti sig alveg á því...“

Skiptir máli að koma rikisfjármálunum saman

Hún hefur sagt að þjóðarhöllin sé í algjörum forgangi.

„Ég get ekki tekið að mér að forgangsraða ríkisútgjöldum [...] ég held ég væri kominn út fyrir mitt umboð, en auðvitað skiptir máli að ná ríkisfjármálunum saman. Þetta lendir allt á sama tíma, áfallið vegna Grindavíkur þar sem 1% þjóðarinnar missir heimili sitt...“

Það er nóg af útgjöldum svo menn bæti ekki við óþarfa.

„Já ég er alveg sammála því. Og það er auðveldara að vinna í ríkisfjármálum þegar það er hagvöxtur.“

Ég ætla þá að fá að endurorða spurninguna. Finnst þér stjórnvöld leggja nægilega mikið af mörkum til þess að ná þessu markmiði að ná verðbólgunni niður. Finnst þér þessi atriði sem ég hef talið hér upp og eru opinber í íslenskum fjölmiðlum, einkum Morgunblaðinu, finnst þér þetta framlag til þess að ná verðbólgunni niður?

„Já, við eigum eftir að sjá það. Þau eiga eftir að leggja fram nýja ríkisfjármálaáætlun.“

Þar vilt þú sjá aðhald.

„Líka bara hvernig þetta er fjármagnað, þessi útgjöld, hvernig ríkið fer að því.“

Nú er ljóst að ríkið er rekið með halla. Það eru bara tvær leiðir til þess, að skera niður ríkisútgjöld eða hækka skatta. Ja þriðja leiðin er  ja bara að taka bara meira af lánum eins og Steingrímur Hermannsson lagði svo eftirminnilega til. Hvaða leið hugnast Seðlabankanum best í því tilliti?

Seðlabankinn vill afgang af ríkissjóði og litlar launahækkanir

„Ef þú spyrð Seðlabankann þá vill hann alltaf sem allra minnstar launahækkanir og sem mestan afgang af ríkissjóði. Auðvitað viljum við sjá sem mest aðhald.“

Ætlið þið að fara á undan með góðu fordæmi með ykkar stóru stofnun?

„Já, já. Rekstur Seðlabankans, ég held að að raunvirði sé hann minni núna en þegar ég tók við.“

Viðtalið við Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóra, má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka