Dregur framboð sitt til forseta til baka

Margrét Friðriksdóttir.
Margrét Friðriksdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Friðriksdóttir, sem heldur úti vefnum frettin.is, hefur ákveðið að draga til baka framboð sitt til embættis forseta.

Frá þessu greinir hún á Facebook og vísar til þess að sextíu manns hafi gefið kost á sér að svo stöddu, og að henni fari bráðum að líða „eins og nál í heystakki“.

„Hins vegar var mér aldrei sérstaklega alvara með „framboð“ mitt nema að því leyti að ég stend áfram á þessum gildum og málefnum og mun halda þeim í heiðri um ókomna tíð,“ skrifar hún.

Sameiningartákn og fullveldissinni

„Langar að þakka öllum þeim sem hafa mælt með mér og lagt traust sitt á mig, þessi stuðningur kom mér satt að segja á óvart og er ég ykkur þakklát fyrir það. Guð blessi ykkur og gefi ykkur visku til að velja forseta sem hefur það að leiðarljósi að vera sameiningartákn, fullveldissinni og hafi að leiðarljósi að vernda kristin gildi og menningararfleifð.“

Loks kveðst hún ekki vilja taka atkvæði frá öðrum frambjóðendum. Óskar hún þess að þjóðinni hlotnist þjóðhollur og góður forseti.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert