Birkið gefur bjórnum karakter

Andri Þór Kjartansson, Gunnar Karl Gíslason, Bergur Gunnarsson og Magnús …
Andri Þór Kjartansson, Gunnar Karl Gíslason, Bergur Gunnarsson og Magnús Már Kristinsson eru ánægðir með hvernig Birkibjórinn kemur út. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er frábær bjór og hann hefur fallið í mjög góðan jarðveg hjá gestum staðarins,“ segir Gunnar Karl Gíslason, matreiðslumeistari og eigandi veitingastaðarins Dill.

Gunnar hefur í samstarfi við brugghúsið Malbygg gert fyrsta íslenska bjórinn sem bragðbættur er með birki. Birkið er sótt í Hallormsstaðaskóg og er bjórinn notaður í matarpörun á staðnum.

Sem kunnugt er var Dill fyrsti íslenski veitingastaðurinn til að hljóta Michelin-stjörnu og hefur frá upphafi verið lagt upp með að nota hráefni úr nærumhverfinu þar.

Því þykir þessi nýjasta viðbót á matseðlinum afar viðeigandi. Malbygg er orðið vel þekkt nafn en það hefur verið í hópi vinsælustu handverksbrugghúsa á Íslandi frá stofnun þess 2018.

Margir telja að bjórar Malbyggs séu á pari við bjóra frá þekktum brugghúsum úti í heimi.

Birkiþema í bjórnum á Dill

Gunnar segir í samtali við Morgunblaðið að val á hráefni í bjórinn sé ekki beint tilviljun, birkið sé honum kært enda sé það einstaklega íslenskt hráefni.

„Birki passar ótrúlega vel við margt af því sem erum að gera á Dill,“ segir matreiðslumeistarinn. Hann segir jafnframt að allur gangur sé á því hvernig matur og vín eða bjór sé parað saman á staðnum.

„Oftast búum við til rétt og finnum svo vín sem passar við. Í þessu tilviki brugguðum við geggjaðan bjór og svo búum við til mat sem passar við hann. Það er ekki óalgengt að við þurfum að breyta réttum til að þeir passi við drykki,“ segir hann en birkibjórinn er nú paraður við tvo eftirrétti á Dill.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út í gær, fimmtudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert