Flugi seinkaði: „Vorum farin að gera aðra dagskrá“

Það er alltaf mikið líf og fjör á Aldrei fór …
Það er alltaf mikið líf og fjör á Aldrei fór ég suður. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður gengur eins og í sögu en tæpt var það þó um tíma. Flugvél sem hafði um borð listamenn úr öllum hljómsveitum kvöldsins seinkaði um nokkra klukkutíma í dag vegna veðurs en skilaði sér þó til Ísafjarðar á fjórða tímanum.

„Það voru komin alls konar plön hjá okkur sem stöndum að þessu. Það voru komin b, c, d og e plön. Við sáum leik á borði - það voru náttúrulega nokkrir sem voru líka á leiðinni í bæinn; Páll Óskar, Emmsjé Gauti og aðrir. Þannig við vorum farin að gera aðra dagskrá fyrir kvöldið en þetta gekk allt upp,“ segir Kristján Freyr Halldórsson rokkstjóri í samtali við mbl.is.

Allt samkvæmt plani

Hann segir að hátíðin gangi ótrúlega vel fyrir sig þrátt fyrir smá kulda og eilitla snjókomu.

„Þetta rímar allt við þessa upphaflegu hugmynd að þessari hátíð – að öllum líði jafn illa í köldu húsnæði um hávetur í hjara veraldar. Þannig þetta er allt samkvæmt plani,“ segir Kristján og hlær.

Mugison tróð upp í gær.
Mugison tróð upp í gær. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

„Enginn sló feilnótu“

Hann segir að vel sé mætt á hátíðina og reiknar með því að „íbúafjöldi“ Ísafjarðar sé tvöfaldur yfir þessa helgi.

„Það gekk allt svo ótrúlega fumlaust í gær og enginn sló feilnótu,“ segir hann um gærkvöldið.

Í kvöld heldur fjörið svo áfram en inn á heimasíðu hátíðarinnar kemur fram að dagskrá frá og með klukkan 19 sé eftirfarandi:

  • Spacestation
  • Birnir
  • Hipsumhaps
  • Helgi Björnsson
  • Of Monsters and Men
  • Bogomil font
  • HAM
  • Inspector spacetime
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert