Tróðu slóð á gilbarminum til að komast að konunni

Viðbragðsaðilar voru með mikinn viðbúnað á vettvangi.
Viðbragðsaðilar voru með mikinn viðbúnað á vettvangi. Ljósmynd/Landsbjörg

Skíðamennirnir sem urðu fyrir snjóflóðinu sem féll í Þveröxl í Fnjóskadal í gær virðast allir hafa lent í snjóflóðinu að einhverju leyti. Það þurfti þó einungis að koma einni úr hópnum til aðstoðar, en hún lenti undir snjóflóðinu og var grafin upp af félögum sínum. 

Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtalið við mbl.is spurður út í aðgerðir viðbragðsaðila í útkalli sem þeim barst á fjórða tímanum í gær vegna fjögurra erlendra ferðamanna sem voru á skíðum þegar snjóflóð féll í Þveröxl í Fnjóskadal. 

Konan var flutt niður fjallið í sleða en troða þurfti …
Konan var flutt niður fjallið í sleða en troða þurfti slóð á gilbarminum til að tryggja öryggi á vettvangi. Ljósmynd/Landsbjörg

Erfiðar aðstæður og mikil snjóflóðahætta

Jón Þór segir að um heilmikla aðgerð hafi verið að ræða og mikið bras fyrir viðbragðsaðila að komast að skíðamönnunum sem staðsettir voru skammt fyrir ofan bæinn Skarð í Fnjóskadal. Það var þó ekki vegna þess hve langt uppi í fjallshlíðinni skíðamennirnir voru, heldur vegna þess hve snjóþungt var á svæðinu, auk mikillar snjóflóðahættu. 

„Það var troðin slóð á gilbarminum upp í hlíðina til að björgunarsveitarfólk væri ekki sjálft að setja af stað flóð,“ segir Jón Þór og bætir við að þegar björgunarsveitarfólk hafi verið á leið á vettvang hafi það séð merki þess að fleiri snjóflóð hefðu fallið í dalnum. 

Það voru því settir upp lokunarpóstar í sitthvorum enda Fnjóskadalsins þar sem þeim björgunarsveitum sem áttu lengra að sækja var safnað saman. Umrætt söfnunarsvæði var skilgreint utan hættusvæði og þar biðu þær sveitir, enda til að tryggja varalið ef annað snjóflóð myndi falla þar sem björgunaraðgerðir stóðu yfir. 

Jón Þór segir þetta hluta af stöðluðu viðbragði í útköllum sem þessum og bætir við að jafnframt sé talið inn á hættusvæðið þangað sem enginn fer nema með snjóflóðaýlu og annan þann búnað sem þarf til að tryggja öryggi björgunarsveitarfólks. 

Þyrla gæslunnar yfir Akureyri í gær þar sem hún beið …
Þyrla gæslunnar yfir Akureyri í gær þar sem hún beið á meðan aðgerðir viðbragðsaðila á staðnum stóðu yfir. mbl.is/Þorgeir

Reyndist ekki ráðlagt að notast við þyrlu Landhelgisgæslunnar

Eins og fram kom í fréttum á mbl.is í gær komu alls 130 viðbragðsaðilar að aðgerðinni. 20 bílar, 24 vélsleðar, ein þyrla, þrír leit­ar­hund­ar, einn snjó­bíll, einn dróni og tveir sjúkra­bíl­ar.

Það reyndist þó ekki þörf á öllum þessum búnaði en Jón Þór segir það regluna að hafa allt með sem gæti nýst á vettvangi, enda til að tryggja eins hratt viðbragð og mögulegt er. 

Sem dæmi segir hann ekki hafa verið ráðlagt að fá þyrlu Landhelgisgæslunnar inn dalinn vegna mikillar snjóflóðahættu og allra þeirra snjóflóða sem merki voru um að hefðu fallið í dalnum, en þyrlan hafði verið kölluð út vegna atviksins og beið átekta á Akureyri á meðan aðgerðir viðbragðsaðila á staðnum stóðu yfir. 

Viðbragðsaðilar söfnuðust saman við lokunarpósta sem settir voru upp í …
Viðbragðsaðilar söfnuðust saman við lokunarpósta sem settir voru upp í fnjóskadal vegna snjóflóðahættu. Ljósmynd/Landsbjörg

Líðan konunnar liggur ekki fyrir

„Síðan varð ljóst þegar búið var að búa um konuna og koma henni í börur og svo á sleða að ekki yrði þörf á þyrlunni,“ segir Jón Þór og útskýrir að björgunarsveitarfólk hafi gengið með konuna í sleðanum niður fjallið þaðan sem farið var með hana í sjúkrabíl á Sjúkrahúsið á Akureyri. 

Til nánari útskýringar á því hvers vegna ekki hafi talist ráðlagt að þyrlan færi inn í dalinn vegna snjóflóðahættu, segir Jón Þór það einfaldlega þannig að hljóð eða hávaði geti komið af stað snjóflóði auk þess sem þrýstingur frá þyrlunni hefði geta haft sömu áhrif. 

Aðspurður kveðst Jón Þór ekki hafa upplýsingar um líðan konunnar. Það hafði þó verið greint frá því í gær að konan hefði verið með talsverða áverka og meðal annars fótbrotin. Þá varð hún jafnframt köld á meðan aðgerðum stóð en ekki talin vera í lífshættu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert