Andlát: Stefán Edelstein

Stefán Edelstein, skólastjóri, tónlistarkennari og píanóleikari, lést 26. mars sl., 92 ára að aldri.

Stefán fæddist í Freiburg í Þýskalandi 28. desember 1931. Foreldrar hans voru dr. Heinz Edelstein, tónlistarkennari og sellóleikari, og dr. Charlotte Edelstein, rithöfundur og hagfræðingur.

Ungur að árum fluttist Stefán til Íslands ásamt foreldrum sínum, sem flúðu nasismann á seinnistríðsárunum. Stefán gekk í Landakotsskóla og tók landspróf frá MR 1949. Hann nam rafeindaverkfræði við Háskólann í Southampton á Englandi árin 1949-1954. Lauk tónmenntakennaraprófi frá KÍ 1957 og einnig prófi í tónlistarkennslu og burtfararprófi í píanóleik frá Tónlistarháskólanum í Freiburg árið 1962. Einnig fór hann í nokkrar námsferðir til Þýskalands, Ungverjalands og Bandaríkjanna meðfram störfum sem tónmenntakennari og píanóleikari.

Að námi loknu kenndi Stefán tónlist í nokkrum skólum, m.a. í Barnamúsíkskóla Reykjavíkur, sem faðir hans stofnaði hér 1952. Síðan tók hann við af föður sínum árið 1962 sem skólastjóri Barnamúsíkskólans. Síðar var nafni skólans breytt í Tónmenntaskóla Reykjavíkur og var Stefán þar skólastjóri allt þar til hann lét af störfum, 86 ára að aldri. Á yngri árum lék Stefán víða á tónleikum sem píanóleikari, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Stefán lyfti grettistaki í tónlistarkennslu hér á landi og var mjög nýjungagjarn. Hann var formaður starfshóps íslenskra og bandarískra tónlistarkennara árin 1973-1981 og kom ásamt fleirum að gerð námsefnis sem gefið var út hér á landi og síðar í Bandaríkjunum. Þá átti hann gott samstarf við íslensk tónskáld, eins og Atla Heimi Sveinsson, Hjálmar H. Ragnarsson og Þorkel Sigurbjörnsson, við flutning á barnaóperum í Tónmenntaskólanum.

Eftirlifandi eiginkona Stefáns er Jóhanna Lövdahl tónlistarkennari, f. 1947. Börn hennar og stjúpbörn Stefáns eru Andri Birkir, f. 1968, og Olga Björk, f. 1973. Börn Stefáns með fv. maka, Önnu-Marie Egloff kennara (f. 1934, d. 1988), en þau skildu, eru Kristján Edelstein, f. 1962, Daníel Edelstein, f. 1964, og Ylfa Edelstein, f. 1967.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert