Jón Gnarr býður sig fram

Jón Gnarr ætlar í forsetaframboð.
Jón Gnarr ætlar í forsetaframboð.

Jón Gn­arr hefur ákveðið að gefa kost á sér til embætt­is for­seta Íslands. Frá þessu greindi hann í myndbandi á samfélagsmiðlum sínum í kvöld. 

Þar segir hann að hann hafi ákveðið að bregðast við því ákalli og hvatningnum sem hann hefur fengið og ætlar því að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands í komandi kosningum. 

„Ég vona auðvitað að ég hljóti umboð þjóðarinnar og held auðvitað að ég verði góður og farsæll forseti. ég hef margt fram að færa sem ég veit að skiptir máli.“

Yfirlýsinguna má sjá í heild sinni hér að neðan.

Leikari og fyrrverandi borgarstjóri

Jón Gnarr á að baki farsælan feril sem leikari, listamaður og grínisti. Hann hefur skrifað og leikið í fjölda sjónvarpsþátta á borð við Fóstbræður, Nætur-, Dag- og Fangavaktina. Einnig hefur hann leikið í kvikmyndum og starfað í útvarpi. 

Jón hefur einnig látið til sín taka í stjórnmálum en árið 2009 stofnaði hann Besta flokkinn sem bauð fram í borgarstjórnarkosningunum 2010. Flokkurinn fékk 6 af 15 borgarstjórnarfulltrúum kjörna. Jón tók þá við sem borgarstjóri og sat út tímabilið. Hann gaf ekki kost á sér til endurkjörs í borgarstjórnarkosningum 2014.

Hefur verið að velta fyrir sér framboði

Jón Gn­arr hef­ur legið und­ir feldi að und­an­förnu. Á laugardag greindi hann frá því á facebook-síðu sinni að hann væri að velta fyrir sér mögulegu forsetaframboði og hann myndi gera grein fyrir ákvörðun sinni í myndbandi á samfélafsmiðlum.

„Þetta er búið að vera langt og strangt ferli; hvað skal gera, hvernig skal gera það og hvenær. Ég hef ekki viljað sitja óþarflega lengi á þessum upplýsingum en heldur ekki ana að neinu og auðvitað, fyrst og fremst, taka ákvörðun sem ég er og verð sáttur með,“ sagði hann í stöðuuppfærslunni. 

Þá vakti athygli að lénið jongn­arr.is hafi verið uppfært á sunnudag. Nú er þar að finna framboðssíðu Jóns.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert