Lýsa yfir miklum áhyggjum af fyrirætlan bæjarstjórnar

Rokksafn Íslands.
Rokksafn Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félag tónskálda og textahöfunda (FTT) lýsir yfir miklum áhyggjum af fyrirætlan bæjarstjórnar Reykjanesbæjar að leggja niður eða draga úr umfangi Rokksafns Íslands í Hljómahöll, til þess eins að koma fyrir bókasafni bæjarins sem nú þrengir að sökum stækkandi yfirbyggingar bæjarskrifstofunnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi tónskálda og textahöfunda en þar segir að Hljómahöll byggi á þremur stólpum tónlistar sem saman mynda eina heild og er órjúfanlegur hluti hugmyndafræði hallarinnar, góðum hljómleikasölum, tónlistarkennslu og sögu íslenskrar alþýðutónlistar. Þá segir að mikið hafi verið lagt í verkefni frá upphafi þegar Rúnar Júlíusson hafi velt upp leiðum til að gera tónlistinni verðug skil í „Bítlabænum.“

Stórkostlegar sýningar verið haldnar

„Stórkostlegar sýningar hafa verið haldnar í Rokksafninu í bland við tónleikahald og allir leikskóla-, grunnskóla-, framhaldsskóla- og háskólanemendahópar fá ókeypis aðgang á safnið til að fræðast um íslenska popp- og rokksögu. Á tíunda þúsund gesta heimsækja Rokksafn Íslands árlega og 31% fjölgun gesta var milli áranna 2022 og 2023.

69% þeirra sem heimsóttu safnið árið 2023 voru Íslendingar og því drjúgur hluti gestanna fróðleiksþyrstir ferðamenn sem þekkja hróður íslenskrar tónlistar á erlendri grundu. Tónlistarfólki hefur þótt afar vænt um hvernig Reykjanesbær hefur þannig viljað varðveita menningararfinn,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Þá segir að nauðsynlegt sé að halda því til haga að ekkert dægurtónlistarsafn sé til á Íslandi að slíku umfangi en Jónatan Garðsson og Jakob Frímann Magnússon hafi átti veigamikinn þátt í vinnu og þróun safnsins ásamt stórum hópi hugsjónarfólks og þáverandi bæjarstjórn.

„FTT hvetur til að fundnar verði aðrar leiðir til að búa vel að bókasafni heldur en að höggva í stólpa einnar merkustu tónlistarbyggingar landsmanna, Hljómahöll.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert