Þjófur í Kópavogi yfirbugaður á vettvangi

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stolið var úr verslun í miðbæ Kópavogs. Þjófurinn var yfirbugaður á vettvangi og handtekinn þegar lögreglumenn bar að garði. Hann var færður á lögreglustöð og vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að yfirheyra hann vegna málsins.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til kl. 5 í morgun.

Fleiri þjófar á ferð

Tilkynnt var um þrjá þjófnaði til viðbótar, alla í Reykjavík. Stolið var úr verslun í hverfi 108 og var málið leyst með aðkomu forráðamanns þar sem gerandi var undir 18 ára aldri. Aftur var tilkynnt um þjófnað úr verslun í sama hverfi og var málið leyst á vettvangi.

Þá barst lögreglunni tilkynning um þjófnað af veitingastað í miðbæ Reykjavíkur. Þjófurinn var færður á lögreglustöð til skýrslutöku og var hann látinn laus að því loknu.

Umferðaróhapp í miðbænum

Umferðaróhapp varð í miðbæ Reykjavíkur. Ein bifreið var óökufær og var hún fjarlægð af vettvangi með dráttarbifreið. Annar ökumaðurinn var kærður fyrir að aka hópferðabifreið án réttinda.

Þrír ökumenn voru handteknir í Hafnarfirði og Garðabæ grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Tveir þeirra reyndust einnig vera sviptir ökurétti.

Umferðaróhapp varð í Árbænum. Engin slys urðu á fólki en ein bifreið var óökufær og var hún því dregin af vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert