Varasamar snjóflóðaaðstæður

Stór þurr flekaflóð hafa fallið í Öxnadal.
Stór þurr flekaflóð hafa fallið í Öxnadal. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Veðurstofa Íslands vekur athygli á varasömum aðstæðum vegna snjóflóða á Norðurlandi og á Austfjörðum.

„Páskalægðin er nú gengin yfir og komið bjartviðri og hægviðri um mestallt land. Útivistarfólk sem hyggst nýta sér góða veðrið og nýja snjóinn næstu daga er þó beðið um að fara varlega, því víða eru varasamar snjóflóðaaðstæður og miklar líkur á að fólk á ferð í brattlendi geti sett af stað snjóflóð,“ segir í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands.

Þar segir að þegar birti í dag komu fjölmörg náttúruleg snjóflóð í ljós á Tröllaskaga, í kringum Eyjafjörð og í nágrenni við Eskifjörð. 

„Á Norðurlandi hafa flest náttúrulegu snjóflóðin líklega fallið á tímabilinu frá páskadegi að síðustu nótt, aðfaranótt þriðjudags. Stór þurr flekaflóð hafa fallið í Öxnadal, í Fnjóskadal, Skeggjabrekkudal, Burstabrekkudal og víðar. Eftir hádegi í dag féll snjóflóð í Dýjadal inn af Dalvík vegna umferðar vélsleða. Til allrar lukku slapp fólk undan flóðinu.

Á Austfjörðum féll stórt flekaflóð í Svartafjalli sem nær langleiðina að veginum upp í Oddskarð. Fleiri stór flekaflóð féllu í nágrenni við Eskifjörð og minni flekaflóð í Seyðisfirði.

Á Vestfjörðum féll snjóflóð yfir veg í Hestfirði í gær og snjóflóðaratsjá mældi lítið snjóflóð í gærkvöldi í Miðhryggsgili innan Flateyrar,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Útivistarfólki er ráðlagt að fara mjög varlega

Næstu daga er spáð úrkomulitlu hæglætisveðri. Frost verður áfram á norðurhelmingi landsins. Við þessar aðstæður er hætt við því að veikleikar í snjóþekjunni viðhaldist og að fólk á ferð í brattlendi geti sett af stað snjóflóð. Útivistarfólki er ráðlagt að fara mjög varlega og forðast brattar brekkur þar sem snjór hefur safnast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert