Fjarðarheiðargöng gætu borgað sig fljótt

Moksturstæki í Öxnadalnum í gærmorgun.
Moksturstæki í Öxnadalnum í gærmorgun. mbl.is/Sonja Sif Þórólfsdóttir

Aflýsa þurfti opnum fundi um Fjarðarheiðargöng og samgöngur Austfjarða með Sigurði Inga Jóhannssyni innviðaráðherra sem halda átti á Egilsstöðum í dag, en samgöngumál brenna á íbúum Seyðisfjarðar og annarra sveitarfélaga á Austurlandi eftir að Seyðfirðingar voru lokaðir inni alla páskahelgina vegna ófærðar á Fjarðarheiði.

Hafa íbúar rætt stöðuna mjög á samfélagsmiðlum um ástand bæjarfélaga sem þurfa að búa við að vera innilokuð vegna ófærðar á fjallvegum og hvort það sé eðlilegt að þeir sætti sig við þessa stöðu, sem kemur upp á hverjum vetri ef ekki oft á vetri víðs vegar um landið.

Innilokaðir dögum saman

Björn Ingimarsson sveitarstjóri Múlaþings segir í samtali við Morgunblaðið í dag að tími sé kominn til að hefja vinnu við Fjarðarheiðargöng, sem kallað hefur verið eftir árum saman. Segir hann samstöðu ríkja um þetta meðal sveitarfélaga á Austurlandi.

Hann bætir við að ekki sé boðlegt að íbúar séu innilokaðir á Seyðisfirði jafnvel dögum saman og engar samgöngur séu til dæmis á sjúkrahúsið á Norðfirði. „Þetta er mjög erfitt fyrir íbúa Seyðisfjarðar. Svo erum við með ferjutengingu við Evrópu og þarna eru miklir fraktflutningar sem fara þarna í gegn, og í tengslum við það er mikill ferðamannastraumur, svo þetta er stórmál fyrir Austfirði að hafa tryggar samgöngur milli staða og annarra landshluta.“

Hann segir jafnframt að vissulega séu jarðgöng gífurlega dýr framkvæmd, en með gjaldtöku fyrir umferð og minni kostnaði við vetrarfærð á fjallvegum myndi kostnaðurinn borga sig upp fljótt og styrkja tengingu landshluta og allt samgöngukerfi landsins gífurlega.

„Það myndi enginn hugsa í dag að Hvalfjarðargöngin hefðu ekki verið góð framkvæmd á sínum tíma,“ segir Björn.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert