„Veit að hann vildi þetta ekki“

Eva Björk Úlfardsóttir ásamt dóttur sinni, Ylfu Sóley Ísleifsdóttur.
Eva Björk Úlfardsóttir ásamt dóttur sinni, Ylfu Sóley Ísleifsdóttur. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Barnsfaðir og sambýlismaður Evu Bjarkar Úlfarsdóttur svipti sig lífi árið 2021 þegar dóttir þeirra var ungbarn. Ísleifur Birgisson var ástin í lífi Evu Bjarkar og í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðins talar hún um söknuðinn og hvernig hún tekst nú á við lífið án hans.

„Fyrstu vikurnar gat ég ekki talað án þess að fara að gráta. Svo hættir maður að gráta, nema þegar maður dýfir sér ofan í fortíðina,“ segir Eva og segist aldrei hafa upplifað reiði.

„En það nístir inn í merg og bein að hafa ekki getað komið í veg fyrir þetta,“ segir hún. „Þetta var ekki hann sem gerði þetta; þetta var sjúkdómurinn. Fyrst á eftir leið mér eins og hann hefði dáið í slysi eða úr hjartaáfalli því ég veit að hann vildi þetta ekki. Þessi flótti var bara veikindin, en ég hélt alltaf í vonina um að hann myndi koma til baka. Tilfinningin var eins og hann hefði ekki ákveðið þetta sjálfur, því við vorum búin að eiga þessar samræður svo oft; um þessar hugsanir sem hann hræddist svona mikið.

Ég vissi alveg að hann vildi þetta ekki. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir fólk sem er að glíma við þunglyndi og sjálfskaðandi hugsanir að þekkja sjálft einkennin. Og tala strax við einhvern; hafa einhver bjargráð. Af því að svo kemur að því að það verður ekki aftur snúið og sjúkdómurinn tekur af þér völdin. Þá biður þú ekki lengur um hjálp,“ segir hún.

Viðtalið í heild birtist í Sunnudagsblaðinu.

Embætti landlæknis bendir á að mikilvægt sé að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717, eða á netspjalli 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-samtakanna s. 552-2218. Píetasamtökin bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir.

Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi bendir landlæknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-samtökunum í síma 552-2218.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert