Hvað stóð á myndinni aftan við Katrínu?

Ljóst er að framboð Katrínar Jakobsdóttur, fráfarandi forsætisráðherra, til embættis forseta Íslands veldur talsverðum titringi í íslenskum stjórnmálum og hafa fræðimenn sem og aðrir álitsgjafar velt upp þeirri spurningu hvort ákvörðun hennar muni leiða stjórnarkreppu yfir landið.

Jón Gunnarsson alþingismaður velti upp þeim möguleika í Spursmálum að gengið yrði til alþingiskosninga síðar í sumar ef ekki gengi betur að koma upp starfhæfum meirihluta við brotthvarf Katrínar.

Frá ávarpi Katrínar á föstudag. Ofarlega í vinstra horni myndarinnar …
Frá ávarpi Katrínar á föstudag. Ofarlega í vinstra horni myndarinnar glittir í textann af kápumynd fyrstu útgáfu bókarinnar Im Westen Nichts Neues eftir Erich Maria Remarque. Skjáskot

Ein besta lýsingin á stríðinu

Í umræðum um þetta fullyrti þáttarstjórnandi að það væri ekki tíðindalaust af Vesturvígstöðvunum og vísaði þar í frægan bókartitil Erich Maria Remarque sem ritaði endurminningar sínar úr fyrri heimsstyrjöldinni og birtar voru í dagblaðinu Vossische Zeitung haustið 1929 og gefnar út á bók í ársbyrjun 1929.

Hafa kvikmyndir verið gerðar eftir verkinu sem er talið vera ein besta lýsingin á því hversu miklar hörmungar stríðið leiddi yfir þá menn sem sendir voru í fremstu víglínu hins tilgangslausa stríðs sem stóð linnulítið á árunum 1914-1918.

Er stundum gripið til þessa orðasambands þegar vísað er í ládeyðu í stjórnmálum samtímans.

Hvað stóð í rammanum?

Snorri Másson fjölmiðlamaður greip boltann á lofti og benti á það sem farið hafði fram hjá flestum að mynd sem vísar í upprunalegan bókartitil þennan hékk í ramma fyrir aftan Katrínu þegar hún ávarpaði íslensku þjóðina frá heimili sínu síðastliðinn föstudag.

Þar stóð í gotnesku letri, Im Westen Nicht Neues, sem útleggst á íslensku sem: Allt tíðindalítið af Vesturvígstöðvunum. Bókin kom raunar snemma út á íslensku eða strax árið 1930 í þýðingu Björns Franzsonar.

Kápumynd fyrstu útgáfu bókarinnar sem kom út í janúar 1929. …
Kápumynd fyrstu útgáfu bókarinnar sem kom út í janúar 1929. Fyrst hafði verkið reyndar birst í nokkrum hlutum í dagblaðinu Vossische Zeitung í nóvember og desember árið 1928. Ljósmynd/Wikipedia/H.-P.Haack

Hvort í textanum felist skilaboð Katrínar til samstarfsmanna sinna í ríkisstjórn skal ósagt látið. Það mun hins vegar skýrast á næstu sólarhringum hver tekur við embætti forsætisráðherra af henni og í kjölfarið væntanlega hvort mögulegt verði að halda friðinn á stjórnarheimilinu, þessu eða öðruvísi samsettu.

Í léttum dúr sagðist þáttarstjórnandi viss um að hafa séð standa á veggnum: Roðinn í austri. En tungutak af þeirri gerð vísar til hreyfingar kommúnista og ekki síst þýðingu Þorsteins Gíslasonar á einum af baráttusöngvum þeirra sem halla sér langt til vinstri á hinu pólitíska litrófi. Hefst hann á hinum kynngimögnuðu orðum: „Sjá roðann í austri, hann brýtur sér braut.“

Viðtalið við Snorra, auk Jóns Gunnarssonar alþingismanns og Heiðu Kristínu Helgadóttur framkvæmdastjóra má sjá í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert