Ástandið ósjálfbært og óásættanlegt

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flutti yfirlýsingu á Alþingi.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flutti yfirlýsingu á Alþingi. mbl.is/Arnþór

Orkuöflun verður aukin það sem eftir lifir kjörtímabils. Séríslenskar reglur og ástandið almennt í útlendingamálum er óásættanlegt, endurbætur á örorkukerfinu standa til og vinna verður bug á verðbólgu. 

Þetta eru helstu áhersluatriði nýrrar ríkisstjórnar sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fór yfir í yfirlýsingu sinni á Alþingi fyrir skömmu. 

Bjarni byrjaði ræðu sína á því að segja að vel hefði gengið á kjörtímabilinu og nefndi hann í því samhengi að verðbólga hafi lækkað, langtímasamningar náðst á almennum vinnumarkaði, hátt atvinnustig, mikill hagvöxtur og sagði hann nýsköpun hafa blómstrað.

„Við sjáum nýjan Landspítala rísa, valkostum sjúklinga fjölgar og íslensk heilbrigðisþjónustu fær aukið fjármagn. Grindvíkingar geta tekið ákvarðanir um sína framtíð í trausti þess að stjórnvöld standa með þeim. Við höldum áfram að byggja upp og treysta innviði landsins og lyfta undir með þeim sem þurfa mest á að halda. Það gengur vel á Íslandi, en verkefninu er aldrei lokið,“ sagði Bjarni. 

Verðbólga enn of há

Hann sagði mikilvægt að ekki yrði raskað þeim árangri sem náðst hefði og að þessi ríkisstjórn muni tryggja þann stöðugleika sem þarf til að framtakssemi fólks þrífist best. 

Hann sagði verðbólgu enn vera og háa og að fjölskyldur horfi margar hverjar fram á of háar afborganir. Verðbólga hefði þó tekið að hjaðna frá síðasta sumri. 

„Áframhaldandi lækkun verðbólgu og þannig efnahagslegur stöðugleiki fyrir heimilin í landinu og atvinnulífið verða leiðarljós okkar í allri okkar vinnu,“ sagði Bjarni. 

Vill klára frumvörp dómsmálaráðherra um útlendingamál 

Næst ræddi hann um útlendingamálin og sagði að traust landamæri væru grundvallaratriði í fullveldi hvers ríkis. Hróp og köll heyrðust ofan af þing­pöll­um þegar Bjarni byrjaði að ræða útlendingamálin en Birg­ir Ármanns­son, for­seti Alþing­is, var fljót­ur að bregðast við og hringja bjöll­unni.

„Séríslenskar reglur mega ekki auka þrýsting á landamærin á Íslandi þannig að innviðir gefi eftir og við þurfum að bera okkur saman við það sem gerist í nágrannaríkjum, til dæmis á Norðurlöndum í þessu efni hvað regluverkið snertir. Ástandið eins og við höfum horft upp á undanfarin misseri er ósjálfbært og óásættanlegt. Stjórn á fjölda þeirra sem hingað sækja forsenda þess að við getum tekið vel á móti þeim sem eiga rétt á að fá hér skjól,“ sagði Bjarni.

Í þessu ljósi sagði hann að hann legði áherslu á að lagafrumvörp Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra til breytinga á útlendinga- og lögreglulögum verði kláruð á þessu þingi. 

Orkuöflun aukin á kjörtímabilinu

Bjarni stiklaði á orkumálunum og sagði að orkuöflun yrði aukin á kjörtímabilinu og að virkjanaferlið yrði einfaldað.

„Byggðir og atvinnulíf í landinu þrífast á grænni orkuöflun og orkuskortur, eins og rætt hefur verið um í vetur, er óásættanlegt ástand. Orkuframleiðsla verður þess vegna aukin á kjörtímabilinu, virkjanaferlið einfaldað og valkostum í grænni orkuöflun og orkuframleiðslu fjölgað á kjörtímabilinu, í góðri sátt við fólk og í góðri sátt við náttúru. Við getum ekki látið það gerast að virkjanakostir, sem hafa verið flokkaðir í nýtingarflokki af okkur á Alþingi í rammaáætlun, tefjist þannig í frumskógi stjórnsýslunnar að það verði ekkert úr framkvæmdum fyrr en eftir allt of langan tíma,“ sagði Bjarni meðal annars um orkumálin. 

Breytingar á örorkulífeyriskerfinu

Hann sagði að ríkisstjórnin myndi styðja áfram við bætt lífskjör og taka vel utan um þá sem þurfa. Sagði hann að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, inni nú að breytingum á örorkulífeyriskerfinu sem eiga að bæta kjör, fjölga valkostum fólks og hjálpa því til sjálfshjálpar.

„Enn fremur get ég nefnt áform okkar í fiskeldismálum og ýmis grundvallarfrumvörp önnur sem verða kláruð á þinginu,“ sagði Bjarni.

Þeir sem eru skoðanalausir takast aldrei á

Hann sagði það vera heiður og forréttindi að setjast í forsæti ríkisstjórnar á Íslandi. Þá kvaðst hann leitast eftir góðu samstarfi við alla flokka á Alþingi.

„Þegar flokkar með ólíka sýn á fjölda mála sammælast um að axla ábyrgð á stjórn landsins, þá ber stundum í milli, vissulega og nema hvað. Upp koma ágreiningsmál og úr þeim þarf að leysa, rétt eins og í öllu samstarfi. Nema hvað. Þeir einir takast aldrei á sem eru með öllu skoðanalausir.

Það er beinlínis innbyggt í lýðræðislega umræðu að gera þarf málamiðlanir, leita sameiginlegrar lendingar. Það þarf ekki að leita langt út fyrir landsteinana til að finna ríki þar sem engar málamiðlanir, engin lýðræðisleg umræða fer fram. Þar sem bara einn tekur ákvörðunina. Ég hygg að slíkan veruleika vilji fæstir og við megum öll vera þakklát fyrir að búa hér í einhverju frjálsasta lýðræðissamfélagi veraldar, jafnvel þótt að stjórnmálaflokkarnir átta sem hér mynda saman þingið séu ekki alltaf sammála um hvert og eitt mál“ sagði Bjarni.

„Við erum frjáls og fullvalda þjóð“

Hann sagði að samstarfið hvíldi á góðum grunni þrátt fyrir að margir reyni að mála upp aðra mynd af stöðu samstarfsins. 

„Staða okkar Íslendinga er um margt öfundsverð í alþjóðlegum ólgusjó. Þrátt fyrir að glíma við veður og vinda, ofanflóð, kraumandi kviku þá finnst nú vart sú þjóð sem býr við betri lífskjör en við Íslendingar. Höfum það í huga þegar okkur greinir á um leiðirnar fram á við.

Við búum að sterkum efnahag, stöðugleika í stjórnmálum og ríkulegum náttúruauðlindum.
Við erum frjáls og fullvalda þjóð, laus við kúgun og stríðsbrölt sem nú gengur yfir allt of víða. Hér er jöfnuðurinn meiri, tækifærin fleiri og sóknarhugurinn stærri en víðast hvar,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert