Grunsamlegar ferðir manna í gulum vestum

Íbúi í Seljahverfi segist hafa haft afskipti af tveimur mönnum …
Íbúi í Seljahverfi segist hafa haft afskipti af tveimur mönnum í gulum vestum sem virtust vera að kíkja inn um glugga hjá fólki. Samsett mynd

Ábendingar hafa borist á hverfissíðunni Betra Breiðholt um grunsamlegar ferðir manna í gulum vestum í Selja- og hólahverfi í Breiðholti. Þá segir íbúi að tveir menn hafi hraðað sér í burtu þegar hann hafði afskipti af þeim. 

Mennirnir eru sagðir í gulum vestum merktum Íslenskum aðalverktökum (ÍAV) og hafa lagt leið sína inn í garða hjá fólki og kíkja inn um glugga auk þess sem þeir eru sagðir hafa reynt að komast inn í stigaganga með því að hringja dyrabjöllu.   

Gengu í burtu án þess að svara

Íbúi í fjölbýlishúsi við Strandasel sem ekki vill láta nafns síns getið segir að hann hafi reynt að spjalla við mennina sem hafi brugðist við með því að forða sér með hraði. 

„Ég gekk í rólegheitum að þeim þar sem þeir virtust vera að kíkja inn um glugga á jarðhæð og spurði hvað þeir væru að gera. Þeir brugðust við með ganga snarlega í burtu án þess að bregðast við að öðru leyti,“ segir íbúinn. 

Hann segir að hann hafi ekki aðhafst að öðru leyti og ekki hringt á lögreglu en hafi hins vegar séð eftir því að hafa ekki gert það eftir að hann sá umræður spretta um málið á hverfissíðunni. 

Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að ekki hafi verið haft samband við lögreglu vegna mannaferðanna.  

Þóroddur Ottesen Arnarson.
Þóroddur Ottesen Arnarson.

Engin verkefni hjá ÍAV á svæðinu 

Þóroddur Ottesen, forstjóri ÍAV, kannast ekki við að starfsmenn á hans vegum hafi átt erindi í Selja- eða Hólahverfi að undanförnu. Þar séu engin verkefni á vegum fyrirtækisins sem stendur. Hann þekkir hins vegar til málsins og að kvartað hafi verið undan mönnum í vestum merktum fyrirtækinu. 

„Við höfum verið að reyna að finna út úr þessu sjálf en án árangurs,“ segir Þóroddur. 

Hann segir að allir sem starfi hjá fyrirtækinu fái svona vesti auk þess sem gjarnan hafi gestum á vinnusvæðum verið úthlutað gestavestum. Því sé ekki loku fyrir það skotið að einhver vesti merkt fyrirtækinu hafi farið á flakk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert