Segir metoo hafa ráðið brottrekstri Jóhanns

Jóhanni var vikið úr landsliði Íslands í hestaíþróttum árið 2021 …
Jóhanni var vikið úr landsliði Íslands í hestaíþróttum árið 2021 eftir að upplýsingar komu fram um dóm sem hann hafði hlotið fyrir kynferðisbrot. Ljósmynd/Landssamband hestamannafélaga

Lögmaður knapans Jóhanns Rúnars Skúlasonar, Þorsteinn Einarsson, segir ólögmæt sjónarmið, sem kennd eru við metoo-hreyfinguna, hafa ráðið ólögmætri ákvörðun stjórnar Landssambands hestamannafélaga (LH) og landsliðsnefndar sambandsins.

Í lok október 2021 tók LH ákvörðun um að víkja Jóhanni úr landsliði Íslands í hestaíþróttum. Áfrýjunardómstóll ÍSÍ hefur nú fellt úr gildi þá ákvörðun LH á þeim grunni að sú ákvörðun LH hafi ekki átt stoð í lögum LH.

27 ár frá dómnum og ákvörðuninni

„Í stuttu máli sagt var honum vikið úr landsliðinu vegna sex mánaða skilorðsbundins dóms er gekk á árinu 1994 – dóms sem ákæruvaldið var sátt við og hvorugur aðili áfrýjaði,“ segir Þorsteinn og bendir á að 27 ár voru liðin frá því dómur gekk og þar til LH vísaði Jóhanni frá landsliðinu.  

Þorsteinn segir að áfrýjunardómur hafi staðfest að þau sjónarmið sem ákvörðunin byggi á séu ólögmæt og ekki grundvöllur löglegrar ákvörðunar.  

Sagði dóm Jóhanns of vægan 

Þorsteinn vísar til orða Sigurbjörns Bárðarsonar, landsliðsþjálfara og landsliðseinvalds Landssambands hestamannafélaga, sem hann lét falla í viðtali við Vísi árið 2021 í tengslum við brot Jóhanns frá árinu 1993, en þar er haft eftir Sigurbirni:

„Nú væri tekið miklu strangar á þessu en á þessum tíma. Þetta er voðalega vægur dómur miðað við eðli brotsins.“

Sigurbjörn Bárðarson, landsliðsþjálfari og landsliðseinvaldur Landssambands hestamannafélaga.
Sigurbjörn Bárðarson, landsliðsþjálfari og landsliðseinvaldur Landssambands hestamannafélaga. mbl.is/Hari

Þá bendir Þorsteinn jafnframt á skýrslu Sigurbjörns vegna heimsmeistaramótsins 2023 í Hollandi, en þar segir Sigurbjörn orðrétt:

„Upp komu leiðindamál strax í kjölfar metoo-byltingarinnar hvað varðar Jóhann R. Skúlason sem dró afdrifaríkan dilk á eftir sér. Landsliðsknapinn, heimsmeistarinn, brást illa við þeim aðgerðum sem fylgdu í kjölfarið. Þar sem landsliðsþjálfari, landsliðsnefnd og stjórn LH tóku ákvörðun um að honum yrði vikið úr liðinu.“

Þorsteinn telur að með þessum ummælum Sigurbjörns væri opinberað að hin ólögmæta ákvörðun um að vísa Jóhanni úr landsliðinu hafi verið tekin á grunni skilorðsbundins dóms um 6 mánaða fangelsi sem gekk fyrir 27 árum.

Þorsteinn segir svokölluð metoo-sjónarmið hafa ráðið hinni ólögmætu ákvörðun og segir hann dóm áfrýjunardómstóls ÍSÍ vera áfellisdóm yfir stjórn LH og landsliðseinvaldi.

Lögðu mat á dóm frá 1994

„Það er athyglisvert að þarna er Landssamband hestamannafélaga að hafa skoðun á dómi frá árinu 1994 og landsliðseinvaldur með yfirlýsingar um að dómurinn hafi verið of vægur.“ 

Þorsteinn segir fráleitt að menn út í bæ, sem ekkert þekki til mála og ekki hafa þekkingu á lögum, deili um niðurstöðu i refsimáli er gekk fyrir tæpum 30 árum.

„Stjórn LH tekur sig til og ákveður að refsa umbjóðanda mínum þrátt fyrir að hafa enga heimild til þess að lögum.“

Þorsteinn segir LH hafa látið undan þrýstingi lítilla hópa í samfélaginu, sem höfðu hátt á þessum tíma, og tekið hina ólögmæta ákvörðun af þeim sökum.

Húsnæði ÍSÍ í Laugardalnum.
Húsnæði ÍSÍ í Laugardalnum. mbl.is/Árni Sæberg

Telur LH skauta yfir niðurstöðuna

„Það andrúmsloft sem ríkti á þessum tíma réð refsikenndri ólögmætri ákvörðun sambandsins og er miður að menn skuli hafa látið þau sjónarmið ráða á kostnað réttinda umbjóðanda míns, sem meðal annars njóta verndar stjórnarskrárinnar.

Slíkar ákvarðanir verði að standast stjórnarskrá, landslög, lög sambandsins og ÍSÍ og svokölluð metoo-sjónarmið hafi enga þýðingu enda um ólögmæt og ómálefnaleg sjónarmið að ræða,“ segir Þorsteinn.

Þá gagnrýnir Þorsteinn viðbrögð LH við dómnum og vísar til yfirlýsingar sem birtist á heimasíðu félagsins. Hann telur félagið skauta alfarið yfir niðurstöðu dómsins um að LH hafi brotið lög með ákvörðuninni og segir hann miður að LH skuli ekki sýna æðsta dómstóli ÍSÍ þá virðingu sem sýna ber dómstólnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert