Ekki litið svo á að logið sé til um aldur

Útlendingastofnun lætur framkvæma aldursgreiningu ef grunur er um að fylgdarlaust …
Útlendingastofnun lætur framkvæma aldursgreiningu ef grunur er um að fylgdarlaust barn sé lögráða en ekki er hægt að staðfesta það á óyggjandi hátt. mbl.is/Hari

Þeir sem leita til Íslands í von um vernd og segjast vera börn eru álitnir sem börn og njóta þeirrar þjónustu sem börn eiga rétt á, þar til annað kemur í ljós. Þetta kemur fram í svörum Útlendingastofnunar við fyrirspurn mbl.is.

Svend Richter rétt­artann­lækn­ir sagði í viðtali í Dagmálum nýlega að um eða yfir átta­tíu pró­sent þeirra sem sækj­ast eft­ir vernd á Íslandi, og segj­ast vera börn, séu fullorðnir einstaklingar sem sækjast eftir þeim réttindum sem eru frátekin fyrir börn.

mbl.is sendi í kjölfarið fyrirspurn á Útlendingastofnun um hvernig brugðist væri við í málum sem þessum þegar gefinn er upp rangur aldur.

„Samkvæmt útlendingalögum skal gerð aldursgreining ef grunur er um að fylgdarlaust barn sé lögráða en ekki er hægt að staðfesta það á óyggjandi hátt. Áður en til þess kemur er reynt að upplýsa auðkenni eftir öðrum leiðum,“ segir í skriflegu svari Þórhildar Óskar Hagalín, upplýsingafulltrúa Útlendingastofnunar, við fyrirspurn mbl.is. 

Álitnir börn þar til annað kemur í ljós 

Eru allir sem segjast börn meðhöndlaðir sem börn?

„Allir sem segjast vera börn eru álitnir vera börn þar til annað kemur í ljós, með aldursgreining eða gögnum, til dæmis skilríkjum eða gögnum frá öðrum löndum. Ef þeir reynast eldri en 18 ára þá er þeim tilkynnt um það sérstaklega.“

Eins og fram kemur hér að ofan er ekki gerð aldursgreining á barni sem sækist eftir vernd fyrr en búið er að upplýsa auðkenni þess eftir öðrum leiðum. Sem dæmi er einstaklingurinn boðaður í viðtal hjá Útlendingastofnun þar sem viðkomandi er gert ljóst að honum beri að leggja fram skilríki eða önnur gögn sem geta staðfest uppgefinn aldur, segir í svari Þórhildar. 

Þá kannar Útlendingastofnun jafnframt hvort til séu gögn um viðkomandi frá öðrum löndum. Ef ekki reynist hægt að afla gagna, eða gögnin þess eðlis að enn er vafi á aldri, er framkvæmd aldursgreining í samræmi við lög, segir í svarinu. 

Töluverður munur á meðferð barns og fullorðins umsækjenda

Spurð hver munurinn sé á meðferð barns og fullorðins umsækjanda um vernd svarar Þórhildur að töluverður munur sé á þeirri þjónustu.

Til útskýringar segir hún það hlutverk Barna- og fjölskyldustofu að tryggja hagsmunagæslu fylgdarlausra barna, útvega þeim vistunarúrræði og að sjá til þess að barnaverndarþjónusta uppfylli þarfir barns á viðeigandi hátt, m.a. hvað varðar búsetu, heilbrigðisþjónustu og möguleika til menntunar.

Það er jafnframt Barna- og fjölskyldustofu að sjá til þess að starfsmaður barnaverndar sé viðstaddur viðtöl stjórnvalda við barnið og gæti hagsmuna þess við aldursgreiningu, segir í svari Þórhildar. 

„Þessari hagsmunagæslu Barna- og fjölskyldustofu lýkur ef barn sem sagðist vera ólögráða telst lögráða samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar. Eftir það nýtur viðkomandi þjónustu sem fullorðinn einstaklingur.“

Umsókn um vernd ekki tekin til meðferðar fyrr en ljóst er um aldur 

Því næst útskýrir Þórhildur að umsókn um vernd sé ekki tekin til meðferðar hjá Útlendingastofnun fyrr en búið er að ákvarða hvort umsækjandi sé barn eða fullorðinn. 

Fái umsækjandi málsmeðferð sem barn ber stjórnvöldum að hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi við mat á umsókninni. Það þýðir meðal annars að litið er til möguleika barnsins á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska. Þá ber að taka tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. 

Auk þess segir í svari Þórhildar að áður en tekin er ákvörðun um að synja fylgdarlausu barni um áframhaldandi dvöl hér á landi sé Útlendingastofnun skylt að leita umsagnar Barna- og fjölskyldustofu.

Hefur ekki áhrif á málsmeðferð þó aldur fáist ekki staðfestur

Spurð hvort það hafi einhverjar afleiðingar fyrir þann sem sækist eftir vernd að segja ekki rétt til um aldur svarar Þórhildur því til að það viti ekki allir hvað þeir eru gamlir. Þar af leiðandi sé ekki sjálfkrafa litið svo á að einstaklingur ljúgi ef hann segist vera yngri en 18 ára en aldursgreining leiðir annað í ljós. 

Þá segir enn fremur í svarinu að það hafi ekki beinar afleiðingar fyrir málsmeðferðina þótt uppgefinn aldur fáist ekki staðfestur við aldursgreiningu.

„Þær upplýsingar verða hins vegar hluti af heildarfrásögn umsækjanda sem metin er með tilliti til trúverðugleika og að hvaða marki skuli byggt á henni við ákvörðun um umsókn um alþjóðlega vernd.“

Greina aldur á einni til tveimur vikum 

„Að undanförnu hefur þetta tekið tiltölulega stuttan tíma eða eina til tvær vikur frá því að fyrir liggur að barn þarf að fara í aldursgreiningu og þar til niðurstaða liggur fyrir,“ segir í svari Þórhildar við fyrirspurn blaðamanns um hversu langan tíma það taki að finna út hvort viðkomandi sé raunverulega barn.

Til útskýringar á ferlinu segir hún að fyrst mæti viðkomandi í aldursgreiningarviðtal hjá Útlendingastofnun. Því næst fer viðkomandi í myndatöku hjá tannlækni áður en réttartannlæknir framkvæmir greiningu og mat. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert