Háar upphæðir vantar í starfsmannasjóðinn

Starfsmenn hafa greitt 1.600 krónur í starfsmannasjóðinn mánaðarlega.
Starfsmenn hafa greitt 1.600 krónur í starfsmannasjóðinn mánaðarlega. Ljósmynd/Colourbox

Ekkert hefur verið greitt í starfsmannasjóð starfsmanna hjá flugfélaginu Erni frá því nýir eigendur tóku við meirihlutarekstri í upphafi árs 2023. Engu að síður hefur ákveðin upphæð verið dregin af launum starfsmanna í hverjum mánuði frá þeim tíma. 

Fer nærri að 30 starfsmenn hafi starfað hjá fyrirtækinu á tímabilinu og eru flestir þeirra í starfsmannafélaginu. Í hverjum mánuði eru teknar til hliðar 1.600 kr. af launum starfsmanna sem ætlaðar eru til fjármögnunar á starfsmannasjóði. Því má ætla að upphæðin nemi 400-600 þúsund krónum.

Ernir var stofnað árið 1970 af Herði Guðmundssyni sem seldi meirihluta­eign sína í upphafi árs 2023. Mýflug eignaðist þriðjung í félaginu í upphafi árs 2023, fjárfestar ríflega þriðjung en 25% var áfram í eigu Harðar og fjölskyldu.

Til stendur að skila inn flugrekstarleyfi Ernis og færa flugreksturinn …
Til stendur að skila inn flugrekstarleyfi Ernis og færa flugreksturinn alfarið til Mýflugs. mbl.is/Sigurður Bogi

Munu vafalaust gera upp við starfsfólk

Fjármálastjóri Ernis, Einar Bjarki Leifsson, vísaði á Sigurð Bjarna Jónsson, stjórnarformann Ernis og Mýflugs spurður um málið. Sigurður segir að honum sé ekki kunnugt um starfsmannasjóðsmálið. 

„Ég kannast bara ekki við málið en það er í mörg horn að líta hjá okkur og við höfum þurft að gera upp ýmis gömul mál. Ef að þarna er eitthvað mál sem þarf að gera upp þá vafalaust kemur að því að við gerum það. En ég kannast ekki við neina ábendingum og ekki einu sinni frá starfsfólki,“ segir Sigurður.    

Eins og fram kom á mbl.is er rekstur Ernis þungur. Félagið er meðal annars með háar lífeyrissjóðs- og skattskuldbindingar sem ekki hefur verið staðið skil á um nokkurt skeið. Til stendur að skila inn flugrekstarleyfi Ernis og færa flugreksturinn alfarið til Mýflugs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert