Leggja til 100 km jarðgöng á höfuðborgarsvæðinu

Með blöndu af ríkisframlagi og einkafjármögnun mætti hraða jarðgangagerð á Íslandi um marga áratugi. Jafnframt tryggja að hægt yrði að aka á láglendi um allt Ísland og komast þannig hjá illfærum heiðum og fjallvegum, ekki síst að vetrarlagi.

Þetta segir Holberg Másson, formaður Sjálfstæðisfélags Miðborgar og Norðurmýrar, en hann er hvatamaður þess að kostir slíkrar gangagerðar eru til skoðunar hjá sérfræðingahópi Sjálfstæðisflokksins. Þær hugmyndir hafi verið kynntar á 30 fundum um land allt í fyrra, þar með talið á fundum með borgarfulltrúum og þingmönnum. Þær hafi síðan verið lagðar fyrir stjórn Varðar og samþykktar og í kjölfarið verið ákveðið að stofna sérfræðingahóp sem Vilhjálmur Árnason þingmaður fer fyrir. Hópurinn einbeiti sér til að byrja með að gangagerð á höfuðborgarsvæðinu enda telji hann hafa skort á slíka áætlanagerð.

Vantaði í umræðuna

„Ég hlýddi á umræður um samgöngumál á Reykjavíkurþingi sem haldið var innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir um tveimur árum,“ segir Holberg.

„Þar var rætt um borgarlínu og fleira en mér fannst eins og það vantaði eitthvað í umræðuna og fór þá í hugmyndavinnu með Einari Hjálmari Jónssyni formanni Reykjavíkurþingsins. Mér fannst einfaldlega eins og það vantaði jarðgöng inn í umræður um samgöngumál á Íslandi og las mér því til um málin. Vegagerðin er með áætlun um 35 jarðgöng úti á landi sem hún segir að muni taka 85 ár að framkvæma miðað við núverandi áætlanir,“ segir Holberg.

Athugun hafi leitt í ljós að hraða mætti þessari uppbyggingu og gott betur og ljúka gangagerðinni á 20 árum. Það er að segja gera um 250 km af jarðgöngum um land allt; 150 km úti á landi og um 100 km á höfuðborgarsvæðinu.

Holberg segir útreikninga benda til að slík gangagerð, alls 250 km, muni kosta um 800 milljarða króna. Til viðbótar hafi hann metið kostnaðinn við að byggja upp kerfi hraðbrauta til og frá höfuðborgarsvæðinu með 110 km hámarkshraða. Áætlaður kostnaður við það sé um 200 milljarðar og heildarkostnaður því um 1.000 milljarðar króna.

„Samræður mínar við verkfræðinga benda til að hægt væri að lækka kostnaðinn um 20%, eða um 200 milljarða, með því að fara í stór útboð í samfelldri framkvæmd.

Lækkar í 800 milljarða

Þá er kostnaðurinn kominn niður í 800 milljarða. Síðasta rekstrarárið hjá Speli í Hvalfjarðargöngum komu um 40% af tekjunum frá erlendum ferðamönnum. Út frá því má ætla að erlendir ferðamenn myndu borga um 300 milljarða af þessum 800 milljörðum og nettókostnaðurinn fyrir Íslendinga því verða um 500 milljarðar,“ segir Holberg.

Með því á hann við að fjármagna megi verkefnið að hluta með veggjöldum sem erlendir ferðamenn geti greitt til jafns við Íslendinga á ferð um landið.

Úr smiðju Jóns Gunnarssonar

Drög að slíku hraðbrautakerfi hafa verið til umræðu.

Með því yrði hægt að aka á 110 km hraða frá höfuðborgarsvæðinu til Borgarness, Hveragerðis og Reykjanesbæjar á hraðbraut sem væri tvær akreinar í hvora átt og að hluta í gegnum jarðgöng.

Holberg segir hugmyndir um nýtt hraðbrautakerfi til og frá höfuðborgarsvæðinu sóttar í smiðju Jóns Gunnarssonar sem hafi í tíð sinni sem samgönguráðherra kynnt slíkar hugmyndir. Holberg segir aðspurður meðal annars miðað við að hægt verði að aka um jarðgöng á Hellisheiði, þegar ekið er frá Reykjavík til Hveragerðis, og í jarðgöngum til Vestmannaeyja.

Varðandi gangagerðina á höfuðborgarsvæðinu sé hugmyndin að byggja upp nýtt meginstofnæðakerfi þar sem hægt verði að aka um jarðgöng milli hverfa á höfuðborgarsvæðinu. Þar með talið jarðgöng undir sjó. Þá til dæmis jarðgöng frá Seltjarnarnesi til Hafnarfjarðar sem liggi að hluta undir Álftanesið. Með slíku kerfi jarðganga megi hafa meginþunga bílaumferðar neðanjarðar og um leið greiða fyrir akstri borgarlínu í framtíðinni.

Alla leið á láglendi

Hvað varðar gangagerðina úti á landi sé markmiðið að hægt verði að aka á láglendi hringinn í kringum landið. Þar með talið frá höfuðborgarsvæðinu til Ísafjarðar í fernum til fimm göngum, líkt og Guðmundur Fertram Sigurjónsson forstjóri Kerecis hafi lagt fram hugmyndir um.

„Hugmyndin er að fjárfesta í innviðum. Og í staðinn fyrir að gera þetta í litlum áföngum á 85 árum þá segja verkfræðingarnir okkur að það sé vel raunhæft að gera þetta á 20 árum. Manni hefur orðið hugsað til ársins 2044 en þá verður lýðveldið 100 ára. Er það ekki ágætis viðmiðun að ljúka verkinu á þeim tíma?“ spyr Holberg og rifjar upp að hringvegurinn var tekinn í notkun 1974. „Það var gjöf Alþingis til þjóðarinnar að aka mætti hringinn í kringum landið,“ segir hann.

Fordæmi úr Hvalfirði

Hann segir dr. Vilhjálm Egilsson meðal þeirra sem hafi lagt vinnu sérfræðingahópsins lið. Samtöl Vilhjálms við fulltrúa lífeyrissjóðanna bendi til að þeir séu áhugasamir um að skoða hið nýja samgöngukerfi. Fordæmi séu fyrir slíkri aðkomu lífeyrissjóða sem hafi ásamt bönkunum fjármagnað Hvalfjarðargöngin á sínum tíma.

„Ég tók þátt í málefnastarfi Sjálfstæðisflokksins og var meðal annars í samgöngunefnd 1992 til 1995 en þá var verið að hvetja til þess að Hvalfjarðargöngin yrðu gerð. Færeyingar komu síðar og skoðuðu göngin og heilluðust. Þeir hafa síðan gert 26 jarðgöng en íslenskar verkfræðistofur hafa komið að gangagerðinni. Því er öll þekking fyrir hendi til að vinna verkið,“ segir Holberg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert